151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

233. mál
[16:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get ekki lokið umræðunni með þessum hætti. Flytjendur hér og framsögumaður tala um að kallað sé eftir þessu en engu er svarað um af hverju það gildi þá ekki bara um alla á vinnumarkaði, hvort sem það eru verktakar eða launþegar, heldur eru það bara einhverjir atvinnurekendur. Það stenst auðvitað ekki í prinsippinu. Ég get alveg fullvissað hv. þingmenn Miðflokks um að ef menn geta ekki greitt launin þá geta þeir ekki greitt sektina. Það er auðvitað langeðlilegast að menn innheimti laun sín og kröfur vegna vanefnda á frjálsum markaði eins og allir aðrir. Að taka vinnumarkaðinn út með þessum hætti gagnvart launamanninum einum er auðvitað stílbrot á öllum meginprinsippum um frjálsan vinnumarkað.

Þegar menn nota orð eins og launaþjófnaður, undirboð og eitthvað slíkt, tengja þetta jafnvel einhvers konar misneytingu, þá er ágætt að rifja það upp að hvers konar blekkingar eða svik eru auðvitað refsiverð. Hegningarlögin okkar sjá um að blekkingar og svik séu hegningarlagabrot og refsað er sérstaklega fyrir það. En að búa til eitthvert hugtak um launaþjófnað út af vanefndum á vinnumarkaði er einhver alger misskilningur sem hefur grasserað í umræðunni í samfélaginu. Þess vegna verða svona frumvörp til. Og það er kallað eftir þeim af verkalýðshreyfingunni, ég geri mér alveg grein fyrir því, en þau eru alveg jafn vitlaus engu að síður.

Ég vara bara almennt við þeirri þróun að við séum raunverulega að glæpavæða öll samskipti mannanna, allar hugsanlegar vanefndir. Þá erum við búin að grafa okkur djúpa holu. Ég skora á menn að hafna frumvarpinu. Það er vont, það er vanhugsað og við höfum margt annað betra að gera, hæstv. forseti.