151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

almannatryggingar.

[13:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þann 16. febrúar sl. sagði hæstv. fjármálaráðherra við mig í óundirbúnum fyrirspurnum að við ættum að vera stolt, og einnig hann, af ótrúlega öflugu almannatryggingakerfi. Stolt af hverju í þessu kerfi? Öllu eða að þeir verst settu séu skattaðir og keðjuverkandi skertir til fátæktar? Stolt af því að það sé bara 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrislaun og síðan 45% skerðingar á lífeyrislaunum eftir skatt? 45% skerðingar á vinnulaunum eftir 100.000 kr. frítekjumark? Eða stolt af keðjuverkandi skerðingum á kjörum öryrkja sem leiðir oft stóran hóp þeirra í sárafátækt?

Þá var hæstv. fjármálaráðherra einnig stoltur af því að frá 2015 hefðu ráðstöfunartekjur þeirra sem þiggja bætur frá almannatryggingum að meðaltali hækkað um 25%. Stoltur af hækkun þeirra úr 200.000 kr. á mánuði fyrir skatt í 250.000 kr. Nei, ellilífeyririnn er kominn í 266.000 kr. Þetta eru sem sagt 25%, rosa hækkun. Á sama tíma hafa laun þingmanna með sömu hækkun hækkað um 250.000 kr. eða sömu upphæð og hinir eiga að lifa af, bara hækkunin. Er hæstv. fjármálaráðherra virkilega stoltur af því? 266.000 kr. er ellilífeyrir í dag og ef þú ert með búsetuskerðingu færðu 10% skerðingu ofan á það plús króna á móti krónu skerðingu á allar tekjur eftir það. Er þetta kerfi til að vera stoltur af?