151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

almannatryggingar.

[13:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé full ástæða fyrir okkur til að vera mjög stolt af því gríðarlega öfluga félagslega öryggisneti sem almannatryggingar á Íslandi eru þar sem við setjum í dag út meira en 10% af öllum útgjöldum ríkissjóðs til að standa með fólki sem ekki hefur nægilega mikið á milli handanna. Það er gríðarlega merkilegt kerfi sem hefur verið að þróast í rétta átt. Aukningin sem hv. þingmaður nefnir hefur kostað ríkissjóð tugi milljarða á undanförnum árum, u.þ.b. 30 milljarða, bara í ellilífeyriskerfin — 30 milljarða aukning á ársgrundvelli frá 2015. Þannig að já, ég held að við eigum að vera stolt af því. Getum við gert betur? Já, við getum svo sannarlega gert betur, en til þess þurfa réttu forsendurnar að vera til staðar. Við þurfum að skapa verðmæti til að geta staðið með öllu þessu fólki. Það er ekkert sjálfgefið þegar fólk hefur lokið starfsævi sinni, þar sem við byggjum á því að lífeyrisréttindi verði til, að við séum bara með öryggisnet sem grípi alla og tryggi framfærslu með þeim hætti sem kerfið gerir í dag þegar ekki hefur tekist nægilega vel yfir starfsævina að afla lífeyrisréttinda. Það er langt frá því að vera sjálfgefið. Ég ætla að fá að segja, af því að hv. þingmaður notar hér einstakt dæmi um tiltekna fjárhæð: Það eru óskaplega fáir einstaklingar sem eru í þeirri stöðu sem hv. þingmaður notaði til að lýsa kerfinu í heild. Það getur maður mjög auðveldlega séð ef maður vill skoða þetta í breiðara samhengi.

Mér verður stundum hugsað til þess þegar við ræðum um þessi mál að ég heimsótti eitt sinn danskan kollega minn, danska fjármálaráðherrann. Fremst á skrifborðinu hjá honum var skilti þar sem stóð með rauðum stöfum á hvítum grunni, svo ég þýði yfir á íslensku: Hvaðan eiga peningarnir að koma? Í augnablikinu erum við að reka ríkissjóð með yfir 300 milljarða halla. Hv. þingmaður talar um það sem eitthvert reginhneyksli að við setjum ekki tugi milljarða til viðbótar út í bætur til fólks. En vandamálið er bara eitt, hv. þingmaður, það er bara þetta hér: Við sköpum ekki enn næg verðmæti til þess að geta mætt slíkum þörfum og slíkum væntingum.