151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segir, með leyfi forseta:

„Aðskilja þarf starfsemi bankanna í viðskipta- og fjárfestingarstarfsemi og hins vegar í innlenda og erlenda starfsemi.“

Nú gefst þingmönnum flokksins tækifæri til að fylgja þeirri stefnu flokks síns og greiða atkvæði með tillögu okkar í Samfylkingunni og samþykkja ekki þennan sýndargjörning Sjálfstæðisflokksins. Það er ljóst að þetta frumvarp, sem felur í sér takmörkun á beinni og óbeinni stöðutöku þannig að samanlögð eiginfjárþörf banka vegna stöðutökunnar verði ekki umfram 15% af eiginfjárgrunni, skiptir engu máli. Svo hátt þak mun engu breyta enda var stöðutökuhlutfall stóru bankanna þriggja 4,35% í lok árs 2019 líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.