151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

staða sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga.

[14:13]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hér í dag. Við sem sitjum í velferðarnefnd fengum bæði talmeinafræðinga og sjúkraþjálfara til okkar í vikunni. Það var frekar dökk mynd sem þau drógu upp fyrir okkur af samskiptum þeirra við Sjúkratryggingar Íslands, stofnun sem við sjáum dagsdaglega sem mikilvæga og er m.a. ætlað að tryggja aðgengi, gæði og fjármagn, og að allt sé rétt og til haga haldið.

Núna horfum við upp á vaxandi biðlista og þeir lengjast og reglugerðum er breytt til mikils óhagræðis, bæði fyrir þjónustuveitendur og þiggjendur. Ég nefni dæmi um bráðameðferð, sem hægt var að fá hjá sjúkraþjálfara án tilvísunar heimilislæknis, sem nú er afnumin með einu pennastriki. Þannig að nú eykst álagið á heimilislækna og nóg var það fyrir. Auk þessa, ef við ræðum þjónustu talmeinafræðinga, þá er oft um börn að ræða og það er sannað að snemmtæk íhlutun skilar bestum árangri. Því sætir það furðu að slíkar girðingar séu settar upp sem gera ekkert annað en að auka vandann, auka biðina og vonleysið.

Ef við ræðum landsbyggðina, af hverju erum við komin á þann stað að tala annars vegar um höfuðborgarsvæðið og hins vegar um landsbyggðina?

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er það vegna þess að ákvarðanir ráðherra breikka þessa gjá? Á að eyða með öllu sjálfstætt starfandi sérfræðingum? Vegna þess að innan þessara raða eru þeir margir hverjir sjálfstætt starfandi og þetta getur allt fallið undir hið opinbera, svo það sé sagt, í gegnum samninga við Sjúkratryggingar Íslands.