151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

staða sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga.

[14:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Já, það var á vissan hátt átakanlegt að heyra raddir sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga sem mættu fyrir hv. velferðarnefnd í vikunni. Það er alveg ljóst að þarna er fagfólk sem vill þjónusta almenning á Íslandi, unga sem eldri, en því miður hafa samskipti við stjórnvöld ekki verið eins og best verður á kosið. Hæstv. ráðherra getur ekki skýlt sér á bak við það að samninga eigi eingöngu að gera við Sjúkratryggingar Íslands af því að Sjúkratryggingar Íslands eru þjónustustofnun á vegum stjórnvalda. Þar verða ráðherrar í ríkisstjórn að bera þá ábyrgð sem þeir bera ef ekkert gengur árum saman að ganga frá samningum við nauðsynlegar stéttir hér á landi, sem leiðir til þess að biðlistar lengjast og lengjast. Biðlistar eftir að komast í nauðsynlega sjúkraþjálfun eru farnir að slaga upp í heilt ár, biðlistar á einstakar stofur, t.d. fyrir talmeinaþjálfun fyrir börn, þar bíða 900 manns eftir að komast í fyrsta viðtal.

Þetta er allt í boði stjórnvalda, herra forseti, í boði ríkisstjórnarinnar að hafa þetta svona, að ganga ekki til samninga, að klára ekki þetta ferli, heldur búa til hvern þröskuldinn á fætur öðrum. Þetta leiðir til þess að lífsgæði versna, lyfjataka eykst og það verður mun meiri kostnaður fyrir íslenskt samfélag. Að láta þetta dragast svona er algjörlega óboðlegt. Það er skortur bæði á talmeinafræðingum og sjúkraþjálfurum hér á landi. Biðlistar eru ógnarlangir og nú verður hæstv. heilbrigðisráðherra að taka á þessu en láta þetta ekki bara malla svona árum saman. Þetta gerist á hennar vakt og hún verður að bera ábyrgð.