151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

staða sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga.

[14:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvaða foreldri vill hringja og biðja um aðstoð fyrir barnið sitt, kannski sjö ára gamalt, hjá talmeinafræðingi og fá þau skilaboð að það sé númer 200 eða 300 eða 400 í röðinni sem þýðir bið í eitt og hálft ár, tvö ár, jafnvel þrjú? Barnið verður þá ekki lengur sjö ára heldur tíu ára og búið að missa af tveimur, þremur árum af skólagöngu. Afleiðingarnar af þessu eru gífurlegar.

Það er svolítið skrýtið að í óundirbúnum fyrirspurnum sagði heilbrigðisráðherra við mig, í sambandi við sjúkraþjálfara, að það hefðu verið, ef ég man rétt, haldnir vikulegir fundir með sjúkraþjálfurum. Á fundi velferðarnefndar sögðust sjúkraþjálfarar ekki kannast við þetta. Ég spyr því: Hverjir voru á þessum vikulegum fundum? Var það bara ráðherra og Sjúkratryggingar Íslands? Og voru þau þá bara að tala um sjúkraþjálfara, vegna þess að sjúkraþjálfarar virðist ekki hafa verið þarna?

Það er ekki hægt að semja við sjúkraþjálfara og þar af leiðandi eru einhverjar þvingunaraðgerðir í gangi. Á meðan er verið að semja fá þeir ekki neitt en það er ekki verið að semja við þá og það er ekki verið að tala við þá.

Og í því samhengi: Hver var tilgangurinn með þessu? Ég get ekki séð að það hafi verið til þess að stytta biðlista að taka sex tímana sem var hægt að fá hjá sjúkraþjálfurum án þess að fara til heimilislæknis. Til hvers í ósköpunum var það gert? Þarna eru einstaklingar sem kannski hafa tognað og eru að missa úr vinnu. Til hvers að senda þá til heimilislæknis til að fá beiðni og draga málið þannig á langinn og viðkomandi missir helling úr vinnu? (Forseti hringir.) Kerfið eins og það var virkaði mjög vel og á þess vegna að vera þannig. Ég skil ekki þegar verið er að leggja steina í götu fólks sem þarf virkilega á þessari þjónustu að halda.