151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

verndun og varðveisla skipa og báta.

243. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um verndun og varðveislu skipa og báta. Auk mín eru flutningsmenn á tillögunni hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri úttekt á því hvernig staðið er að verndun og varðveislu skipa og báta og geri tillögur að úrbótum. Starfshópurinn taki m.a. saman yfirlit yfir skip og báta sem hafa menningarlegt og atvinnusögulegt gildi, óháð aldri, og endurskoða aldursmörk skipa og báta samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012. Í starfshópum eigi sæti fulltrúar frá félagasamtökum er sinna verndun skipa og báta, fulltrúar frá greinum sjávarútvegsins og fulltrúar héraðssafna auk fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands. Starfshópnum verði jafnframt falið að finna fjárstreymis- eða fjáröflunarleiðir til verkefnisins og móta reglur um meðhöndlun fjármagnsins. Starfshópurinn skili úttekt sinni og tillögum til mennta- og menningarmálaráðherra innan árs frá samþykkt tillögu þessarar. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.“

Í greinargerð með tillögunni segir að þingsályktunartillaga þessi hafi verið flutt áður á 150. löggjafarþingi en ekki fengið afgreiðslu og sé því endurflutt núna.

,,Hinn 9. maí 2000 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 18/125, um varðveislu báta og skipa. Í þeirri þingsályktun er ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu- og byggðasögu sem og að móta reglur um fjármögnun og skilgreina varðveislugildi báta og skipa. Menntamálaráðuneytinu var falin framkvæmd ályktunarinnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Í umræðum um fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um undirbúning tillagna um hvernig staðið skuli að varðveislu gamalla skipa og báta sem hafa menningarsögulegt gildi, sbr. ályktun Alþingis frá 9. maí 2000 (428. mál á 131. löggjafarþingi), kom fram að skipuð hefði verið nefnd sem lagt hefði fram tillögur sínar í minnisblaði árið 2002. Þá kom einnig fram að tillögurnar hefðu verið til sérstakrar skoðunar ráðherra og að fram ætti að fara endurskoðun á þjóðminjalögum, nr. 107/2001.

Lög um menningarminjar, nr. 80/2012, leystu m.a. af hólmi þjóðminjalögin. Megintilgangur laganna er að stuðla að verndun menningarminja og auka skilvirkni minjavörslu í landinu. Samkvæmt 3. gr. laganna teljast skip og bátar til forngripa, þ.e. lausra minja og eru aldursmörk skipa og báta sem teljast til forngripa sett við ártalið 1950.”

Hérna vil ég staldra aðeins við vegna þess að sumir vilja meina að þarna sé um prentvillu að ræða eða mistök, að miða við þetta ártal sem aldursmörk skipa og báta sem teljast til forngripa, að það geti ekki staðist vegna þess að tíminn líður og skip verða alltaf eldri og eldri, þau sem teljast til gamalla skipa. Þess vegna væri betra að breyta þessu í 50 ára og eldri, til að þessi lög stæðust tímans tönn, bara svipað og er með fornbíla þar sem miðað er við 25 ára og eldri en ekki við neitt ártal. Þannig að þessu þyrfti að breyta og er mjög brýnt að það verði gert.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

,,Þá teljast fornleifar hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri …“ — Þarna er miðað við 100 ár í öðrum menningarminjum sem styður það sem ég var að segja um að skip ættu að vera 50 ára og eldri en ekki að miða við visst ártal. — ,,Til byggingararfs teljast hins vegar hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, sbr. 4. gr. laganna.

Hérlendis hafa verið smíðuð fjölmörg skip og bátar. Mikilvægt er að viðhalda þekkingu á smíði gamalla báta og skipa, enn fremur hefur það menntunargildi. Þannig væri hægt að nýta gömul skip við fræðslu ungmenna og nýta uppgerð skip til kennslu.“

Þetta er einmitt mjög góð ábending um menningarlega gildið og eins tillagan um að kynna og kenna ungu fólki á skip og sjómennsku svo að það þekki hvaðan við komum og hvernig þetta var fyrr á árum Sjómennskan hefur breyst mikið og þess vegna er mjög brýnt að kenna ungu fólki og hvetja það til þessara starfa eða til að kynna sér þetta.

Ef ég held áfram:

,,Þá hafa fjölmörg samtök og áhugafélög tekið að sér að viðhalda skipum og bátum og má telja að án aðstoðar þeirra hefði skipum og bátum, sem í eru fólgin menningarverðmæti og arfleifð handverks, verið eytt. Að mati flutningsmanna er mikilvægt að veita þessum samtökum stuðning.

Tilgangur tillögu þessarar er að gera úttekt á því hvernig staðið hefur verið að verndun og varðveislu skipa og báta, m.a. með hliðsjón af lögum um menningarminjar, auk þess að taka saman yfirlit yfir skip og báta sem talin eru hafa menningarlegt og atvinnusögulegt gildi, óháð aldri, í þeim tilgangi að fá heildarmynd af stöðunni. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að starfshópurinn geri tillögur að úrbótum. Mikilvægt er að starfshópurinn hafi til hliðsjónar hvort tilefni sé til að verndun skipa og báta sem hafa varðveislugildi verði sambærileg og verndun byggingararfs. Jafnframt skoði starfshópurinn hvort falla eigi frá því að miða aldursmörk við ártal …“ — eins og ég gat um fyrr í ræðunni, að miða við 50 ára og eldri en ekki við ártal eins og er í lögunum, svo það sé sagt aftur.

Þessi tillaga snýst sem sagt um að fá þann starfshóp sem nefndur var í upphafi til að skoða alla þessa þætti frá öllum hliðum málsins og hvernig til hefur tekist, hvers vegna við höfum ekki náð betri árangri í varðveislu skipa og báta og hvað megi betur fara, svo að við getum lært af mistökum sem hafa verið gerð í þeim efnum. Það verður að segjast eins og er að þetta hefur verið í sameiginlegu verkefni með húsaminjum og meiri orka og peningar hafa farið í þá starfsemi og af því þarf að læra, svoleiðis að við getum einbeitt okkur að því að varðveita betur skip og báta.

Það er ýmislegt sem má læra og við höfum nýleg dæmi um það, hæstv. forseti. Nýlega var í fréttum mjög merkur bátur í Vestmannaeyjum sem heitir Blátindur. Hann er smíðaður einhvern tímann í kringum 1930 og honum var haldið til haga og settur í naust þar sem hann átti að vera til sýnis. Svo er það í einhverju vonskuveðri að hann fer á flot. Hann er dreginn yfir höfnina og sekkur síðan, er á botninum við bryggjuna í nokkra daga og er síðan tekinn upp og þá kemur náttúrlega í ljós að hann er bæði skemmdur og illa farinn og það kostar mikið að gera við hann. Í haust voru menn síðan að gefast upp á þessu verkefni, að sjálfsögðu út af peningaleysi. Ég var að lesa fréttir og sá að það var verið að skora á eigendur þessa merka bátar að sjá til og bíða átekta. Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn Sambands íslenskra sjóminjasafna hvetur framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja til að endurskoða ákvörðun sína um förgun á Blátindi VE 21 og huga að sögulegu mikilvægi skipsins og varðveislugildi. Þar með er tekið undir með Hollvinafélögum Húna II á Akureyri og Magna í Reykjavík.“

Einnig segir að ekki megi farga Blátindi og að menn verði að leita allra leiða til að bjarga honum. En þetta eru dýr verkefni og það þarf peninga í þau og það er sorglegt að við skulum vera að horfa upp á að þessum merki báti verði jafnvel fargað.

Við getum líka nefnt bát sem er á safninu á Akranesi, kútter Sigurfara, sem er búinn að vera þar í 30 ár uppi á landi og er orðinn liðónýtur af því, því að trébátar þurfa að vera á sjó til að endast. Það eru áform um að farga honum. Það mætti kannski bjarga honum með því að lappa upp á hann þar sem hann er, bara þannig að útlitið héldist í lagi. En svona mætti áfram telja.

Við náum ekki utan um þetta verkefni. Við tölum mikið á tyllidögum en við gerum lítið. Við erum að tala um minjar, við erum að tala um verðmæti og menningu. Við komum hér siglandi yfir hafið þegar Ísland var numið á sínum tíma á skipum og bátum og ef við getum ekki haldið þeim menningarverðmætum sem þó eru enn til, sem ekki er búið að eyðileggja, í einhverju því horfi sem við getum verið stolt af þá er illa komið fyrir okkur. Mér finnst það vera eitt af forgangsmálum okkar að ná utan um þetta mál og koma því á þann stað að þetta sé í lagi. Eins og ég segi er þetta dýrt en menningarminjar eins og þessi gömlu skip og bátar eru ómetanlegar. Það er eiginlega ekki hægt að horfa í kostnað heldur þarf að horfa til þess að ganga til verksins og koma þessu í lag. Það eru félög hringinn í kringum landið sem eru með fullt af bátum sem þurfa uppbyggingu og í það þurfa stjórnvöld að setja orku og kraft.