151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

hagkvæmisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

259. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu á Skógarstrandarvegi á Snæfellsnesi. Flutningsmenn auk þess sem hér stendur eru hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hlutast til um að gerð verði fjölþætt hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar á norðanverðu Snæfellsnesi, milli Búðardals og Stykkishólms, sem heilsársvegar. Athugunin taki til samfélagslegra og byggðalegra áhrifa þess að efla þannig samgöngur á milli byggðarlaga á norðanverðu Snæfellsnesi, um Dali, í Reykhólasveit, um sunnanverða Vestfirði og norður á Strandir. Sérstaklega verði litið til styrkingar svæðisins sem eins atvinnu- og þjónustusvæðis, uppbyggingar ferðaþjónustu og vegaöryggis. Ráðherra leggi niðurstöður hagkvæmnisathugunarinnar fyrir Alþingi ásamt kostnaðaráætlun vegna uppbyggingarinnar í síðasta lagi 1. apríl 2021.“

Það er svolítið stutt þangað til en við skulum vera bjartsýn. Í greinargerð segir:

Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 148. löggjafarþingi af Bjarna Jónssyni og á 150. löggjafarþingi af þeim sem hér stendur en var ekki afgreidd. Málinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar sem sendi málið til umsagnar.

Rannsókn sem gerð var á slysatíðni á vegum á árunum 2007–2010 undir stjórn Þórodds Bjarnasonar leiddi í ljós að Skógarstrandarvegur var einn þriggja hættulegustu vegarkafla landsins, hvorki meira né minna. Ekki er ástæða til að ætla að þetta hafi breyst til batnaðar þar sem fréttir af umferðaróhöppum á þessum vegi eru tíðar enda ástand hans bágborið. Ljóst er að hann stendur engan veginn undir þeirri umferð sem þar er eða því hlutverki sínu að mynda greið tengsl milli byggðra bóla, þar sem hann liggur. Viðhald og endurbætur á þessum vegi hafa nánast engar verið á undanförnum árum og áratugum og lítill gaumur verið gefinn að mikilvægi hans fyrir greið samskipti á milli byggðarlaga og eflingu ferðaþjónustu og viðskipta innan þessa svæðis. Allur vegurinn er á láglendi meðfram sjó og enga fjallvegi yfir að fara sem teppast fyrstir vegna veðurs eða snjóalaga. Það yrði því fyrirhafnarlítið að halda uppbyggðum Skógarstrandarvegi opnum allt árið um kring.

Í þingsályktun nr. 41/150, um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034, kemur fram að kostnaður við framkvæmdir á Skógarstrandarvegi sé 4 milljarðar kr. Á fyrsta tímabili, 2020–2024, fari 100 millj. kr. í framkvæmdir á veginum, 850 millj. kr. á öðru tímabili áætlunarinnar, 2025–2029, og á þriðja tímabili, 2030–2034, 3,1 milljarður. Ekki liggur fyrir hvenær áætlað er að verkinu verði lokið en ljóst er af samgönguáætlun að það verður í það minnsta ekki á næstu 15 árum, hæstv. forseti. Það er ansi langur tími. Slík bið eftir nauðsynlegum úrbótum á veginum er ótæk og mikilvægt að fjármögnun framkvæmdarinnar verði tryggð fyrr. Brýnt er að hafist verði handa sem fyrst við uppbyggingu Skógarstrandarvegar svo hann verði ekki lengur slysagildra og fái gegnt samgönguhlutverki sínu með sóma. Með eflingu samgangna um norðanvert Snæfellsnes og innanverðan Breiðafjörð opnast nýir möguleikar til margvíslegs samstarfs og bættrar þjónustu, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum. Eins og staðan er nú þurfa íbúar þeirra byggðarlaga sem tengd verða saman með uppbyggðum heilsársvegi um Skógarströnd oftast að ferðast um langan veg til að komast á milli svæða þótt vissulega sé hægt að komast um illfæran veginn hluta ársins eins og hann er í dag.

Þessar byggðir eiga sumar hverjar í vök að verjast í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Þegar horft er til aukinnar ferðaþjónustu er svæðið uppfullt af náttúrufyrirbrigðum, sögu og menningarhefðum sem gætu staðið undir uppbyggingu ferðaþjónustu ef greiðar samgöngur væru fyrir hendi. Þingsályktunartillögunni er ætlað að stuðla að því að uppbyggingu þessa mikilvæga samgöngumannvirkis verði komið í kring eins fljótt og unnt er. Það gerist ekki síst með því að skoða gaumgæfilega hve mikla þýðingu slíkar samgöngubætur hafa og draga fram sterkari forsendur fyrir því að hraða uppbyggingu þessa vegar.

Þetta stendur í greinargerðinni. Í lokaorðunum kemur fram að draga þurfi fram sterkari forsendur fyrir því að hraða uppbyggingu þessa vegar. Það minnir mann á að við höfum oft talað um að ástand samgangna hér á landi eru a.m.k. tíu árum á eftir samtímanum, tíu árum á eftir þörfinni, ef ekki meira. Því þarf að leita allra leiða til að flýta þessari vegaframkvæmd, ásamt öðrum framkvæmdum að sjálfsögðu, á vegum sem þarfnast uppbyggingar.

Hæstv. forseti. Mig langar að vitna í umsagnir frá því í janúar 2020 sem sendar voru þegar samgönguáætlanir, bæði til skamms tíma og lengri tíma, voru til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd. Það eru sveitarstjórar hvor við sinn enda þessa vegar, þ.e. sveitarstjórinn í Búðardal og bæjarstjórinn í Stykkishólmi, sem ég ætla að vitna aðeins í, með leyfi hæstv. forseta. Í umsögn Kristjáns Sturlusonar, sveitarstjóra Dalabyggðar, er bent á eftirfarandi:

„Í markmiðum draga að samgönguáætlun er talað um jákvæða byggðaþróun og stefnt verði að því að auka lífsgæði um land allt með bættum samgöngum og styrkja þann grunn sem nauðsynlegur er til að efla fjölbreytta atvinnu og bæta samkeppnishæfni, svo sem með betri aðgangi að þjónustu.“

Síðan segir aftar í umsögninni:

„Það er ljóst að hlutur Dalabyggðar er ekki mikill í samgönguáætlun og seint farið í verkefni og ekki er verið að uppfylla markmið áætlunarinnar varðandi samgöngur innan sveitarfélagsins, en allt hér að ofan eru lykilþættir til að auka búsetugæði í Dalabyggð og efla byggðina.“

Þetta segir orðrétt í umsögn frá Kristjáni Sturlusyni, sveitarstjóra í Dalabyggð. Svo segir:

„Vegakerfi Dalabyggðar er með því verra sem gerist og er sveitarfélagið í 70. sæti af nær jafnmörgum sveitarfélögum á landinu yfir hlutfall vega með bundnu slitlagi. Tíðni umferðarslysa er einnig einna mest í Dalabyggð og er vegakerfið innan sveitarfélagsins það fimmta hættulegasta á landinu samkvæmt skýrslu sem nefnist Samgönguáætlun Vesturlands og unnin var á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi á árinu 2017. Nýlega hafa verið dregnar fram þær upplýsingar að vegur 54 er annar hættulegasti vegur á Vesturlandi.“

Síðan þetta var skrifað hefur ekkert breyst.

Bæjarstjórinn í Stykkishólmi, Jakob Björgvin Jakobsson, sendi ítarlega umsögn um tillögudrögin sem voru til umræðu í fyrra. Þar segir m.a.:

„Þar sem Skógarstrandarvegur er hluti grunnnetsins samkvæmt samgönguáætlun mætti ætla að hann væri forgangsatriði við ráðstöfun fjármuna á samgönguáætlun líkt og markmið hennar kveða á um, en það endurspeglast hins vegar ekki í fyrirliggjandi samgönguáætlun. Það er því óhjákvæmilegt að gera þá kröfu að fyrirliggjandi samgönguáætlun verði breytt með tilliti til mikilvægis vegarins sem hluti af grunnneti samgöngukerfisins og framkvæmdum verði flýtt þannig að vegurinn komi til framkvæmda á fyrsta tímabili samgönguáætlunar.“

Bæjarstjórnin færir fjölmörg rök til stuðnings máli sínu, m.a. að núverandi ástand Skógarstrandarvegar sundri byggðum í stað þess að góður vegur myndi auka samvinnu og stuðla að sameiningu byggðar. Hann rekur samfélagsleg og byggðaleg áhrif vegabóta á m.a. búsetu, atvinnulíf, loftslagsmál og skólasókn. Vegurinn hafi í raun virkað sem hraðahindrun á atvinnuþróun og uppbyggingu á svæðinu, sér í lagi í Dalabyggð og hafi einnig verið það fyrir fjölmörg fyrirtæki. Ástandið í dag sé óboðlegt og hafi verið lengi. Þá bendir Jakob Björgvin á að út frá öryggissjónarmiðum sé vegurinn um Skógarströnd meðal hættulegustu vegarkafla landsins og miðað við núverandi ástand hamli hann uppbyggingu ferðaþjónustu og dragi úr framþróun í ferðamálum.

Hæstv. forseti. Það kemur mjög skýrt fram hjá báðum þessum sveitarstjórnarmönnum, hvor sínum megin þess vegar sem er hér til umræðu, hvernig ástandið er. Það segir manni í raun og veru, enn og aftur, að þetta hefur gleymst, það hefur bara gleymst að fara í þessar framkvæmdir. Orðið hefur uppbygging á vegakerfinu á Snæfellsnesi suður í Borgarfjörð og til Reykjavíkur og norður í land. En þessi kafli, inn Skógarströnd og inn í Dali og tengingin við þá vegi sem byggðir hafa verið upp í austurendann, getum við sagt, hefur gleymst, hann hefur setið á hakanum. Kannski má setja það undir hatt of mikillar kurteisi. Ég veit það ekki. Menn voru svo fegnir á sínum tíma þegar vegurinn kom yfir Vatnaleið á Snæfellsnesi t.d., sem leysti af hólmi gamla Kerlingarskarðið, og gerði það að verkum að ófærð heyrir nánast sögunni til yfir norðanvert Snæfellsnes og einnig suður. Menn urðu svo fegnir að þessi vegarkafli fékk ekki mikla umfjöllun eftir það. En nú er heldur betur kominn tími til. Við þurfum að ráðast í þetta. Þau rök sem færð eru fyrir því eru náttúrlega öryggissjónarmið og líka atvinnuuppbygging á svæðinu og svo er það ferðamannastraumurinn, sem fer vonandi af stað á þessu ári að einhverju leyti, og eins þungaflutningar. Þetta styttir leiðina mikið norður og vestur, á Vestfirði og norður í land. Þungaflutningabílar sem keyra mikið þungavöru norður og vestur, og suður frá Vestfjörðum og að norðan, fara ekki þessa leið vegna þess að vegurinn er ónýtur. Þeir fara frekar leið sem er 50 kílómetrum lengri til að vera öruggir um að komast, því að betri er krókur en kelda. Uppbygging vegarins myndi greiða þær samgöngur mjög mikið og allt það sem hér hefur verið talið upp. Ég ætla að gera þetta að lokaorðum mínum: Oft var þörf en nú er nauðsyn að byggja upp Skógarstrandarveg.