151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

hagkvæmisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

259. mál
[17:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru rétt tvö atriði sem mig langar að nefna. Annars vegar stendur hér í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Það yrði því fyrirhafnarlítið að halda uppbyggðum Skógarstrandarvegi opnum allt árið um kring.“

Mig langar að velta því upp, að fenginni reynslu af framkvæmd vetrarþjónustu Vegagerðarinnar í fjórðungnum þar sem það eru oft ekki vegirnir sem tálma samgöngur heldur það að þeir eru einfaldlega ekki ruddir þegar mest þarf á að halda, hvort þetta sé kannski svolítil bjartsýni hjá okkur, hvort ekki þurfi að halda Vegagerðinni alltaf við efnið þegar kemur að því að þjónusta vegi á þessu svæði á veturna.

Og síðan hitt atriðið. Mér fannst dálítið sláandi núna í janúar þegar niðurstöður birtust úr íbúakönnun landshlutanna sem Byggðastofnun hafði látið framkvæma þar sem Dalirnir komu alveg hræðilega út. Íbúar í Dölunum eru, af öllum þeim sveitarfélögum sem undir voru, óánægðastir með sveitarfélagið sitt. Þetta er frábær sveit, örugglega ofboðslega gott að búa þarna. Skyldi vera að samgöngur spili þar eitthvað inn í? Eðlilega getur svona lítið sveitarfélag ekki boðið upp á t.d. alla afþreyingu sem fólk vill til að fylla tímann. Þá getur verið gott að skreppa eitthvert. Getur verið að þessi tálmun, sem lélegur Skógarstrandarvegur er við því að fólk geti leitað sér þjónustu út fyrir sveitarfélagið, sé ein af ástæðunum fyrir því að Dalirnir koma jafn illa út úr svona mælingum og raun ber vitni? Því að efniviðurinn til að þetta sé fyrirmyndarsveitarfélag er auðvitað allur til staðar.