151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

dagbókarfærslur lögreglunnar.

[13:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég tek upp tólið og ræði við lögregluna um ýmis mál sem að mér er beint og ekki í fyrsta skipti sem ég ræði um dagbókarfærslur við lögregluna. Það hafa komið upp atriði þar sem lögreglan hefur þurft að biðjast afsökunar á dagbókarfærslum sem hafa gengið of nærri borgurum þessa lands. Ég hef átt slík samtöl áður við lögregluna og ég á þau mjög reglulega. Og ég á sem betur fer í mjög góðum samskiptum við lögregluna um almannavarnir, skipulagða brotastarfsemi og annað sem ég hef þurft að svara fyrir.

Ég hef margítrekað hvað fór okkar á milli. Ég spurði um þær verklagsreglur sem giltu um þessar dagbókarfærslur því að ég hafði fengið spurningar um það frá fjölmiðlum sem og hvaða persónuverndarsjónarmið giltu og hvernig lögreglan liti á það. Ég tók þó einnig fram í samtalinu við lögreglustjórann að ég hefði ekki sérstakar áhyggjur af okkur ráðherrunum í þessu atriði heldur vildi ég einungis geta svarað þeim fjölmiðlum sem voru að beina að mér þessum spurningum seinna um daginn varðandi þessar reglur, ekki bara um aðilann sjálfan sem var nefndur heldur hvernig dagbókarfærslan var sett fram og hvaða reglur gilda um það hve langt lögreglan gengur í því að setja fram upplýsingar í þessum færslum.

Það voru þannig spurningar sem ég var búin að fá frá fjölmiðlum og ég hef leitast við í öllum mínum störfum að vera vel upplýst áður en ég svara fjölmiðlum.