151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

refsingar fyrir heimilisofbeldi.

[13:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Sönnunarmat er auðvitað dómara, en það er okkar sem setjum lögin að átta okkur á því að ef það er ekki nógu skýrt hvað við ætlum okkur með þessum þýðingarmiklu og mikilvægu úrbótum á löggjöf um ofbeldismál þá þurfum við að endurskoða það. Það er mjög mikilvægt að gera það í samstarfi við alla aðila sem koma að þessum málum á öllum stigum. Að hafa sérstakt ákvæði í hegningarlögum sem lýsir ofbeldi í nánu sambandi, og gerir það refsivert, eru mjög mikilvæg skilaboð til samfélagsins um að ofbeldi í nánum samböndum verði ekki liðið. Slík brot eru ekki einkamál aðila og löggjafinn á að beita sér fyrir því, og við ætlum að gera það, að vernd þessara aðila sé mikil. Það höfum við gert með margvíslegum aðgerðum og við munum ekki hætta hér heldur ætlum við að tryggja það. Það gerum við með því að setja það inn í hegningarlögin að ofbeldi á heimilum sé ekki einkamál aðila.