151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Orkubú Vestfjarða.

[13:37]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Orkubú Vestfjarða var stofnað árið 1978 og var það þá sameignarfélag sveitarfélaga á Vestfjörðum og ríkisins, en frá árinu 2002 hefur orkubúið að fullu verið í eigu ríkisins og þar með opinbert hlutafélag. Fyrirtækið býr að áratugareynslu við virkjun vatnsafls og jarðhita og er eina orkufyrirtækið í landinu sem er bæði með dreifingu og sölu á raforku. Orkubúið rekur orkuver og raforkustöðvar til raforkudreifingar ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til þess. Fyrirtækið rekur sjö vatnsaflsvirkjanir sem framleiða u.þ.b. 90.000 megavattstundir á ári, sem er um 60% af orkunotkun Vestfjarða. Við fyrirtækið starfa 70 manns, bæði við framleiðsluna og dreifikerfið, og líta Vestfirðingar á fyrirtækið sem kjölfestufyrirtæki í heimabyggð. Sérstaða Orkubúsins á raforkumarkaði er sú að flutningshlutinn, sem er dreifiveitan, hefur ekki verið aðskilinn frá framleiðslu og sölu á raforku. Með breytingu á raforkulögum var gerð krafa um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþátta raforku. Á samráðsgátt stjórnvalda má finna drög að aðgerðum til umbóta á regluverki á sviði raforkumála. Þar er að finna tillögu um könnun á sameiningu Rariks og Orkubús Vestfjarða. Í skýrslu Deloitte er bent á að hagræða megi með sameiningu dreifiveitna og í því skyni sé fyrsti kostur að sameina þessi fyrirtæki í ljósi þess að þær dreifiveitur eru í ríkiseigu. Ef til sameiningar kæmi liggur fyrir að skilja þyrfti á milli þessara þátta samkvæmt raforkulögum.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Sé vilji til sameiningar hvað hyggst ráðherra gera við þann hluta orkubúsins sem tilheyrir samkeppnishlutanum, eða framleiðslu og sölu á raforku? Í öðru lagi: Orkusalan er í eigu Rarik og sér um framleiðslu- og sölumál. Er verið að horfa til þess að sameina samkeppnishluta orkubúsins við það fyrirtæki? Og í þriðja lagi: Ef svo er, kæmi til greina að flytja það sameiginlega fyrirtæki til Vestfjarða?