151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Orkubú Vestfjarða.

[13:39]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er rétt að inni á samráðsgátt stjórnvalda eru drög að aðgerðum til umbóta á regluverki á sviði raforkumála. Þar er annars vegar um að ræða drög að breytingum á raforkulögum og hins vegar ýmsar breytingar og tillögur varðandi úrbætur á regluverki í átt að aukinni skilvirkni og einföldun og auknum hvata til hagræðingar hjá sérleyfisfyrirtækjum. Þessar tillögur byggja í raun á vinnu sem við fórum í með Deloitte að fyrirkomulagi er varðar flutning og dreifingu raforku. Ein af þeim aðgerðum er könnun á sameiningu Rariks og Orkubús Vestfjarða. Hér er ekki um að ræða nýjar hugmyndir. Þær hafa áður komið upp á undanförnum árum.

Ég tel hins vegar rétt að við setjum núna sérstaka vinnu í gang og köfum dýpra í að kanna kosti og galla við slíka sameiningu. Það er margt sem hægt er að ræða í því samhengi. Við erum með allnokkrar dreifiveitur og mismunandi eignarhald. Þessar tvær eru, eins og hv. þingmaður kom inn á, í 100% eigu ríkisins og það er ekki náttúrulögmál að þær þurfi að vera fimm. Það er einfaldlega spurning hverju við náum fram með slíkri skoðun. Við höfum auðvitað, eins og hv. þingmaður þekkir mætavel og við höfum margoft rætt hér í þessum sal, verið að vinna að því að jafna orkukostnað á landsvísu á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hugmyndir um eina sameiginlega gjaldskrá hafa m.a. verið teknar til ítarlegrar skoðunar. Hugmyndir um sameiningu dreifiveitna eru angi af sama máli og snúa fyrst og fremst að aukinni skilvirkni og hagkvæmni við rekstur dreifikerfis raforku á Íslandi, viðskiptavinum dreifiveitna til hagsbóta, hvar sem þeir eru búsettir. Þar eigum við einfaldlega ekki að útiloka neitt að mínu mati. Hér er því lagt til að settur verði af stað formlegur starfshópur til að skoða þetta og fara í samráð við þessi fyrirtæki og aðra lykilaðila.

Ég er sammála hv. þingmanni um að Orkubú Vestfjarða er kjölfestufyrirtæki og kjölfestustarfsemi í Ísafjarðarbæ og skiptir svæðið ofboðslega miklu máli. Mér hefur fundist miður að umsvif til að mynda Rariks hafi ekki aukist á landsbyggðinni þrátt fyrir að viðskiptavinir fyrirtækisins séu allir þar. Ef maður leyfir sér að teikna upp einhverja framtíðarsýn í því hvar þjónustan er veitt og hvar starfsemin er þá eru ýmis tækifæri til úrbóta að mínu viti.