151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Orkubú Vestfjarða.

[13:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin en ítreka að spurningin um samkeppnishlutann varð eftir, hvað við gerum við framleiðsluhluta orkubúsins ef við skiptum þessu.

Í sömu drögum um aðgerðir til umbóta á regluverki á sviði raforkumála er einnig að finna áherslu á gæði raforku og afhendingaröryggi. Í skýrslu um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, sem kom út í síðasta mánuði, segir að á Vestfjörðum hafi það verið lengi heldur lakara en víðast annars staðar. Það er ekki ný frétt fyrir Vestfirðinga og lengi hefur þar verið þrýst á um úrbætur, en staðan er samt þessi þrátt fyrir ýmsar endurbætur á liðnum árum. En þá er spurningin: Mun sameining leiða til þess að styrking verði á raforkuflutningi innan dreifiveituhluta fjórðungsins með aukningu strengvæðingar og um leið þrífösunar? Ég minni svo á þá spurningu sem ekki var svarað áðan.