151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Orkubú Vestfjarða.

[13:43]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Í raun er of snemmt að svara því hvað verður um samkeppnishluta orkubúsins, komi til slíkrar sameiningar, eða hvort hann geti sameinast samkeppnishluta Rariks. Það er hluti af vinnunni fram undan að greina slíka þætti nánar. Varðandi þá spurningu hvort til greina komi að flytja sameiginlega fyrirtækið til Vestfjarða þá segi ég bara: Það er ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum. Ég vísa til þeirra markmiða sem ég nefndi áðan um að efla starfsemi á landsbyggðinni, samanber það sem fram kemur í þessu aðgerðaskjali. Það er rétt að atvinnuþróun á Vestfjörðum líður fyrir hversu ótrygg raforkan er á þessum svæðum í samanburði við aðra landshluta. Þetta er viðurkennt og það dregur úr samkeppnishæfni svæðisins. Þetta er viðurkennt í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Sameiginlegt verkefni stjórnvalda, Landsnets og Orkubús Vestfjarða er að finna leiðir til að styrkja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Landsnet hefur forgangsraðað í kerfisáætlun sinni ákveðnum framkvæmdum og að sama skapi hafa slíkir fjármunir farið til Rariks og Orkubús Vestfjarða. Ég tel að möguleg sameining Rariks og Orkubús Vestfjarða ætti að geta haft samlegðaráhrif sem munu leiða til þess að kerfið styrkist. Það er markmiðið með þessu öllu að efla umsvif úti á landi, að auka skilvirkni, hagræðingu og efla þessa þjónustu við íbúa.