151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[13:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa sérstöku umræðu um innviði og þjóðaröryggi. Við erum rækilega minnt á það þessi misserin að við búum í lifandi landi sem er í sífelldri mótun og getur á stundum verið harðbýlt. Óveður hafa sett raforkukerfi úr skorðum, snjóflóð hafa fallið fyrir vestan og aurskriður fyrir austan, heimsfaraldur Covid-19 hefur ekki aðeins sett daglegt líf á Íslandi úr skorðum heldur einnig um víða veröld og torveldað samgöngur og vöruflutninga milli landa. Nú skelfur suðvesturhornið dag eftir dag vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og á þessari stundu er ófyrirséð hvaða enda það tekur. Allt vekur þetta upp áleitnar spurningar um þjóðaröryggi og innviði þjóðarinnar, orkuöryggi, fæðuöryggi, netöryggi og hvernig við tryggjum almennt að fólk geti verið öruggt í heimabyggð.

Við sjáum að jarðskjálftar síðustu daga hafa vakið umræðu í fjölmiðlum um hvernig við t.d. rýmum byggðir á suðvesturhorni landsins ef allt færi á versta veg og hvernig brugðist yrði við ef hraunrennsli færi yfir Reykjanesbrautina eða Suðurstrandarveginn o.s.frv. Rétt er að taka fram að sem stendur er slíkt fjarlægur möguleiki, en ef síðustu ár hafa kennt okkur eitthvað þá er það að útiloka ekki neitt. Verkefnið er ekki lengur að gera þjóðaröryggisstefnu og hvers kyns áætlanir sem bíða ofan í skúffu þegar váin stendur fyrir dyrum. Það er nauðsynlegt að við séum sífellt að endurskoða framkvæmdir og stefnumótun ríkisins með tilliti til þjóðaröryggis. Værum við t.d. þessa dagana vel sett með innanlandsflugvöll í Hvassahrauni? Væri það skynsamlegt ef til meiri háttar hamfara kæmi að vera með innanlandsflug í uppnámi vegna staðsetningar í Hvassahrauni, Reykjanesbrautina lokaða vegna hraunrennslis og þar af leiðandi ótryggar samgöngur við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík? Hvernig ættum við að rýma byggðir á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu við slíkar aðstæður? Þetta eru erfiðar spurningar sem við verðum að eiga svör við.

Í skýrslu forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi, sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins óskuðum eftir fyrir réttu ári, er vísað í niðurstöður átakshóps um úrbætur á innviðum þar sem segir að einfalda þurfi ferlið vegna undirbúningsframkvæmda við flutningskerfi raforku þar sem einstaka þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir hafi tekið langan tíma í stjórnsýslumeðferð. Þetta mál ratar brátt inn í sali Alþingis. Að sjálfsögðu verður áfram viðurkennt að höfuðábyrgð á framkvæmd skipulagsmála liggi hjá sveitarfélögunum, en um leið er áréttað að ríkisvald geti farið fram með almenna stefnumótun í skipulagsmálum og ábyrgð eftir atvikum líkt og fordæmi eru fyrir í nágrannalöndunum, svo sem í Danmörku og Noregi.

Þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem samþykkt var á Alþingi 13. apríl 2016, er að mati okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem óskuðum eftir skýrslunni, ekki nógu ítarleg varðandi þessa þætti, þ.e. mikilvægi samgönguinnviða, raforku- og fjarskiptakerfis, netöryggis og fæðuöryggis, með tilliti til öryggis borgaranna og samfélagsins alls. Við teljum því nauðsynlegt að öryggi samfélagslegra innviða verði metið með tilliti til þjóðaröryggis landsins og grunnur lagður að heilsteyptri löggjöf varðandi öryggismál þjóðarinnar. Sömuleiðis er brýnt að greina ítarlega grunninnviði samfélagsins og þá samfélagslegu innviði sem teljast mikilvægir að teknu tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Þannig má tryggja öryggi þjóðarinnar og jafnframt sameiginlega skilning á því hvað felist í þjóðaröryggishugtakinu. Sá sameiginlegi skilningur er forsenda þess að þjóðarsátt ríki um hvernig öryggi lands og þjóðar sé best tryggt.

Okkur stjórnmálamönnum hættir til að hugsa um landið í kjördæmum og hugsa verkefnin út frá hagsmunum þeirra. Slíkur þankagangur getur verið mikil brotalöm þegar horft er til heildaröryggishagsmuna. Við þurfum að byggja almannavarna- og öryggiskerfið upp þannig að það virki heildstætt, hvernig t.d. flugvellir landsins geta unnið saman, hvort sem er innan lands eða í millilandaflugi, hvernig raforkukerfið virkar heildstætt til að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar, hvernig vegakerfið tengir saman landshluta á ögurstundu og getur borið mikinn fjölda fólks af hættusvæðum á skömmum tíma.

Hæstv. forseti. Mikið er rætt um sviðsmyndir í fjölmiðlum þessa dagana. Sem betur fer hafa svörtustu sviðsmyndir tilhneigingu til að rætast ekki. Það er trú mín að allt fari nú á besta veg. Það breytir ekki því að við sem sitjum í þessum sal, Alþingi og ríkisstjórn, berum hér höfuðábyrgð. Það er fortakslaus skylda okkar að tryggja sem best öryggi lands og þjóðar. Þá þurfum við að hugsa til þess sem undir öðrum kringumstæðum væri óhugsandi. Sú ábyrgð hvílir þungt á herðum okkar, en undan þeirri skyldu megum við aldrei skorast.