151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[13:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við búum á eldfjallaeyjunni Íslandi langt norður í höfum. Vond veður, snjóflóð, eldgos, aurskriður líkt og á Seyðisfirði og nú síðast jarðskjálftarnir á Reykjanesskaganum minna okkur á að ógn af ýmsum toga getur að okkur steðjað. Við vitum aldrei hvenær eða hvar á landinu náttúruhamfarir verða. Það eina sem við getum gert er að búa okkur vel undir það versta, vera með traustar varnir, almannavarnir, og gæta að þjóðaröryggi. Í því ljósi verðum við að hanna alla innviði í landinu okkar og halda þeim við. En við ráðum ekki við allt ein. Loftslagsvá virðir ekki landamæri og það gera vírusar ekki heldur.

Norðurlandaráð hefur kallað skýrt eftir auknu samstarfi ríkisstjórna Norðurlanda um samfélagsöryggi, að metið verði hvort stjórnunarferlar norræns almannavarnastarfs séu nægilega skýrir og hvað þurfi að skýra frekar, að sameiginlegar bjargir, útkallsmöguleikar, samnorrænt áhættumat og viðbúnaðaráætlanir verði reglulega uppfærðar, að unnin verði áætlun um samnorrænar æfingar og námskeið í neyðarviðbrögðum. Mikilvægt er að vinna gegn ógnum á borð við netárásir í samvinnu við önnur norræn ríki og nágrannaþjóðir. Norðurlandaráð hefur kallað eftir auknu samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna um netöryggi og að ríkisstjórnirnar sjái til þess að sameiginlegum ástandsskýrslum um ógnir og hættur í netumhverfi sé miðlað jafnóðum milli norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna. Mikilvægt starf fer fram um netöryggismál innan NATO og einnig innan Evrópusambandsins. Þar þurfum við að tryggja aðgang okkar að upplýsingum og sækja okkur stoð til að tryggja eins og hægt er að innviðir okkar þoli ágang þeirra sem ógna vilja netöryggi okkar og um leið öryggi þjóðarinnar.