151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:00]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir að óska eftir þessari umræðu hér í dag. Einnig fannst mér upplýsingarnar sem hæstv. forsætisráðherra lagði hér fram varðandi þessa eftirfylgniskýrslu athyglisverðar. Ég hef ekki séð hana sjálf og er forvitin að fara yfir það sem stendur í henni. Það er gott að skýrslan sé komin fram og einnig ánægjulegt að heyra að þetta sé sú fyrsta en ekki sú síðasta. Ég tek einnig undir með hæstv. forsætisráðherra að það sé afar mikilvægt, bara í ljósi samfélagsþróunar, að endurskoða þjóðaröryggisstefnuna reglulega.

Af mörgu er að taka í þessari umræðu. Margir hafa nefnt samgöngukerfið og fjarskiptin. Fleira er nefnt hér í þessu samhengi, t.d. Hvassahraunið og einhverjar hugmyndir um flugvöll þar. Þá vil ég bara stinga því að að í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar námu fjárfestingar í samgönguframkvæmdum 6 milljörðum og þar af fóru 500–600 milljónir til undirbúnings verkefna á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. Það skiptir náttúrlega mjög miklu máli að við séum með öruggar flugsamgöngur í ólíkum landshlutum. Við vitum aldrei hvar váin gæti komið upp. Þá erum við kannski helst að horfa einmitt til náttúruhamfara.

Fæðuöryggismálið er stórt, ég hef mikið rætt það hér í þessum ræðustól og kem kannski að því í seinni ræðu, og einnig netöryggismálunum. Við ákváðum einmitt í síðustu fjárlögum að leggja fram fjármagn svo að Ísland gæti tekið þátt í fjölþáttaógnasetri, eða „hybrid center“ — ég veit ekki alveg hvernig á að þýða þetta, hæstv. forseti — sem er í Helsinki. Hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa verið þar innan borðs um tíma en ekki við. Nú erum við komin þangað inn þannig að samstarfið við hin Norðurlöndin og aðrar þjóðir, ekki bara Norðurlöndin, (Forseti hringir.) er kannski orðið formfastara þar sem við erum þátttakendur í þessu starfi. En við þurfum að halda áfram að huga að netöryggismálum og vera í nánu samstarfi við okkar góðu nágranna.