151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:05]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Jörð skelfur, farsótt geisar, loftslagsvá steðjar að, náttúran brestur og hagkerfið haltrar. Ógnirnar eru margar og þær eru ólíkar. Þegar við tölum um þjóðaröryggi þá er tilhneiging til að tala um það sem öryggi gagnvart alþjóðapólitískum ágreiningi og hernaði honum tengdum. En raunverulegar öryggisógnir sem steðja að okkur eru margvíslegar; náttúruvá og það sem tengist sjálfbærni eða virkni innviða og jú, vissulega hernaðarógnir, en allt þetta er þess eðlis að hægt er að kortleggja það. Það er hægt að skipuleggja sig. Það er hægt að nálgast það kerfisbundið og átta sig á því hvaða ógnir eru til staðar, hversu líklegar þær eru og hversu miklum skaða þær geta valdið ef þær raungerast. Að því marki er mjög gagnlegt að við búum til skýrslur þar sem farið er yfir þessa hluti. Það er gott að við búum til landsáætlanir og það er gott að við hugum að öllum þeim kerfum sem við þurfum til þess að bregðast við ógnunum fyrir fram, koma í veg fyrir að þær raungerist. En í þeim tilfellum þar sem það er ekki hægt þurfum við að geta brugðist við þeim þegar þær raungerast þannig að þær valdi sem minnstum skaða. Þegar við vinnum þá vinnu, og það er það sem ég hef saknað svolítið í þessari umræðu, er ekki nóg að skipuleggja vinnuna heldur þurfum við líka að tryggja að nægt fjármagn sé til staðar í öllum kerfunum til að hægt sé að vinna hana skipulega og vel.

Það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði í innleggi sínu, að skipulag og viðhald hversdagslegra hluta er ekki sérstaklega spennandi. Það er ekkert sérstaklega skemmtilegt pólitískt efni. En yfirleitt er það margfalt mikilvægara en við gerum okkur grein fyrir (Forseti hringir.) og þess vegna ættum við alla vega að reyna að gefa þessu aukið vægi í umræðunni.