151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu og þá skýrslu sem við höfum nú fengið frá hæstv. forsætisráðherra. Það er af mörgu að taka og ómögulegt að fara yfir það á tveimur mínútum. Ég ætla að nefna hér sérstaklega síðasta punktinn í skýrslunni, á bls. 14, þar sem spurningin var hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunninnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggis. Þar er rakin sú saga að hér áður fyrr gat ríkið gripið inn í skipulagsmálin, en með setningu nýrra laga árið 2010 var það afnumið. Í staðinn settum við á svokallaða landsskipulagsstefnu. Ég hef verið talsmaður þess að í landsskipulagi séu skilgreindir ákveðnir grunninnviðir sem skipta okkur öll máli út frá þjóðaröryggishagsmunum. Að við séum með það í því ferli, t.d. þegar við ræðum um vegi eða lagnir sem fara í gegnum fjölda sveitarfélaga, að það liggi hreinlega fyrir í landsskipulagsstefnu að svona sé þetta. Það sé farið í gegnum skipulagsferlið í landsskipulagi en ekki í hverju sveitarfélagi fyrir sig með svæðisskipulagi, aðalskipulagi og svo með framkvæmdunum sjálfum. Nefnt er í síðasta punktinum að þetta sjónarmið hafi svo sannarlega verið rætt en engin afstaða tekin til þess. Mér finnst tímabært að við svörum því í þessum sal hvort ekki sé þörf á því að taka upp landsskipulagið og setja inn ákveðna grunninnviði sem væru þá festir niður með þessum hætti.

Mig langar að ræða svo margt annað, virðulegur forseti. Netöryggismálin. Mig langaði að nefna fjármálakerfið okkar sérstaklega og greiðslumiðlunina. En ég verð að enda á því að segja að þegar við búum hér við jarðskjálfta og heimsfaraldur þá erum við samt sem áður að glíma við stærsta faraldurinn, sem er loftslagsváin sjálf. Við erum með frábær viðbrögð við því hvernig við ætlum að draga úr útblæstri. En, virðulegur forseti, ég held við þurfum að herða okkur enn frekar í aðlögun að þeim breytingum sem þegar hafa orðið og munu óhjákvæmilega verða. Þær hafa áhrif á allt okkar daglega líf.