151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Fyrir skemmstu skilaði starfshópur skýrslu til utanríkisráðherra um ljósleiðaramálefni og útboð ljósleiðaraþráða. Þar er um að ræða ráðstöfun á tveimur ljósleiðaraþráðum af þremur í streng umhverfis landið sem oft er kallaður NATO-ljósleiðarinn. Starfshópurinn segir að hafa beri hugfast að öryggi fjarskipta eru grundvallaratriði þegar kemur að öryggi og vörnum hvers ríkis og að öryggi íslenskra fjarskiptakerfa hefur áhrif á öryggi okkar nánustu vina- og bandalagsríkja. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Varsjá í júlí 2016 samþykktu bandalagsríkin að skuldbinda sig til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að efla varnir innviða og netkerfa. Á sama leiðtogafundi var lögð áhersla á að fjarskipta- og netkerfi gætu staðið af sér hættuástand og voru bandalagsríkin sammála um mikilvægi öruggra fjarskiptakerfa þar sem forgangsaðgengi stjórnvalda á hættutímum er tryggt.

Þessi aukna áhersla á fjarskipta- og netöryggi endurspeglast einnig í viðbrögðum einstaka ríkja. Nærtækt dæmi eru Bandaríkin en einnig má nefna Þýskaland. Sömu sögu má segja af Frakklandi og Bretlandi og Norðurlöndunum. Nú þegar hafa Danmörk, Noregur og nú síðast Svíþjóð valið að nota búnað frá nánum bandalagsþjóðum í uppbyggingu 5G-fjarskiptaneta, sem svo eru kölluð. Í öllum tilfellum var ákvörðunin grundvölluð á þjóðaröryggissjónarmiðum.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að þegar kemur að ákvörðunum sem lúta að net- og fjarskiptaöryggi stöndum við Íslendingar þétt með bandalagsþjóðum okkar í Atlantshafsbandalaginu og vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum með þjóðaröryggi að leiðarljósi.