151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:21]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum farið í einhvers konar upptalningar. Ég gerði það sjálfur í fyrri ræðu enda er þetta það brýnt viðfangsefni. Það er ekki hægt að komast hjá því að fara í upptalningar. En ef maður flettir einu lagi dýpra þá snýst þetta allt í grunninn um góða fjármögnun og gott viðhald stofnanakerfa og innviða sem við reiðum okkur á daglega, og líka þau kerfi sem við viljum ekki þurfa að reiða okkur á daglega heldur eru til þess gerð að bregðast við þegar eitthvað kemur upp á. Þá verðum við aðeins að hugsa um pólitísku spurningarnar: Á hvaða tímapunkti eru niðurskurður, einkavæðing og lágmarksríki farin að vera ógn við þjóðaröryggi? Að sama skapi: Hvenær er óskilvirkur ríkisrekstur orðinn ógn við þjóðaröryggi? Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ríkisrekstur geti verið skilvirkur og að einkavæðing geti verið gagnleg. En undirliggjandi í þessari umræðu er ákveðin pólitísk spurning sem ég held að sé of auðvelt að sneiða hjá vegna þess að þegar við horfum á þau kerfi sem við reiðum okkur á er 40 ára vanfjármögnun á viðhaldi gegnumgangandi, of lítil áhersla er á að hlutirnir virki vel. Það hefur áhrif á upptalninguna á stofnunum og öðru sem við reiðum okkur á. Þegar við tölum um þjóðaröryggi ættum við því að vera að hugsa um samfélagið í stóru myndinni: Hvað skiptir okkur máli sem samfélag og hvernig ætlum við að verja þau verðmæti sem samfélagið er?