151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni nefndi ég sjúkraflug og mögulegar truflanir á því. Það fer ekki á milli mála að mikið hefur verið rætt um Reykjavíkurflugvöll og staðsetningu hans í sambandi við aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að bestri mögulegri heilbrigðisþjónustu. Mig langar til að velta upp spurningu um hvort flugvöllurinn og sjúkraflug í núverandi mynd sé endilega öruggasta fyrirkomulagið sem okkur stendur til boða. Í ágúst árið 2018 gaf velferðarráðuneytið út skýrslu um aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. Þar kom fram að aukin aðkoma með þyrlu og staðsetning þyrluþjónustu með sérhæfðu bráðaviðbragði á nokkrum stöðum á landinu gæti bætt árangur sjúkraflutninga til muna. Flugvellir eru ekki til staðar alls staðar þar sem þörf er á skjótri viðbragðs- og neyðarþjónustu, það gefur augaleið. Þyrlur í sjúkraflutningi geta tekið á loft nær hvar sem er og þeim er hægt að lenda við hlið sjúkrahúss. Aukin fjárfesting á þessu sviði er að mínu mati betur til þess fallin að tryggja þjóðaröryggi vegna slysa og náttúruhamfara en frekari uppbygging flugvallarins í Reykjavík. Þetta yrði líka til þess fallið að tryggja betur öryggi sjómanna. Metnaðarfull uppbygging á þessu sviði samhliða aukinni uppbyggingu raforku- og fjarskiptakerfis og bættum ofanflóðavörnum yrðu sennilega stærstu skrefin sem ríkisstjórnin gæti stigið á þessum tíma á sviði þjóðaröryggismála. Það er auðvitað fjölmargt annað sem fjalla mætti um; umhverfismálin, netöryggismálin, öryggi gagnvart ofurvaldi stórfyrirtækja á alþjóðavísu, en ég vona að útgangspunkturinn í umræðunni verði að vinna ríkisstjórnarinnar í þjóðaröryggismálum muni felast í því að greina með skýrum hætti helstu veikleikana (Forseti hringir.) í innviðum sem tengjast þjóðaröryggi og bæta úr þeim.