151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um þjóðaröryggismál. Þar fellur undir raforka, orkuþörf og netöryggi. En hvað með Bitcoin, nýjasta gullgrafaraæðið á Íslandi? Ef það er rétt, sem ég las, að orkuþörfin við Bitcoin-gröftinn aukist jafnt og þétt eftir því sem fleiri Bitcoin finnast og eftir því sem fleiri Bitcoin finnast því erfiðara verði að grafa, því meiri og fleiri tölvur þurfi til að grafa og því meiri orku þurfi að nota, þá erum við að elta skottið á sjálfum okkur. Þá þurfum við að fara að setja einhver lög og reglur um þessa starfsemi.

Síðan eru það heilbrigðismál og náttúruhamfarir. Við erum því miður enn í þeirri stöðu að ég held að við höfum ekki tekið nógu alvarlega þær hamfarir sem við megum búast við, t.d. vegna skógarelda. Þar þurfum við að taka til hendinni vegna þess að þessi gífurlega uppbygging á skógum sem skógarbændur hafa staðið fyrir um land allt er tifandi tímasprengja ef við erum ekki tilbúin með brunavarnir og brunabelti til að verja það.

Síðan er það líka spurningin um Schengen. Við erum með Schengen og þar erum við með kerfi til að hindra að óæskilegir aðilar komist inn á Evrópska efnahagssvæðið. En gleymum við því ekki að fylgjast með þeim sem þegar eru inni og geta oft verið mun verri? Þar er ég t.d. að tala um erlendar glæpaklíkur og innlendar. Er það ekki þjóðaröryggismál að við höfum það á hreinu að allt sé gert til þess að stöðva svoleiðis starfsemi hér á landi og öllum ráðum sé beitt til þess að koma í veg fyrir að þær festi hér rætur varanlega?