151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:28]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra og hv. þingmönnum fyrir góða og mikilvæga umræðu í dag. Ég vil vitna í lokaorð skýrslu forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Grunninnviðir lands og þjóðar eru ýmist á forræði einkaaðila, ríkis eða sveitarfélaga. Þau sjónarmið hafa komið fram að ríkið fari með skipulagsvald vegna grunninnviða sem varða þjóðaröryggi og landið í heild.“

Ég tel að gott samstarf allra sem koma að grunninnviðum sem varða þjóðaröryggi sé lykillinn að farsælli stefnu og þarna þurfum við að leggja minni hagsmuni til hliðar fyrir meiri. Við megum ekki festast í hugsunarhætti stjórnmála liðinnar tíðar og festa tennurnar í gömlu þrætuepli. Þjóðaröryggishagsmunir eru hagsmunir þjóðarinnar allrar. Hagsmunir einstakra aðila geta aldrei vegið þyngra.

Ég vísaði í ræðu minni áðan til þess hvernig nágrannalönd okkar vinna að sambærilegum málum og við getum leitað fordæmis hjá þeim. Ekkert land hefur tekið upp slík vinnubrögð að ástæðulausu. Öll lönd þurfi að tryggja öryggi sitt með margvíslegum hætti. Ísland er engin undantekning og við vitum að hér þarf að taka til hendinni.

Kannski höfum við Íslendingar verið feimin við að ræða þjóðaröryggismálin á opinskáan hátt þar sem slík umræða verður stundum eins og þráður í amerískri hasarmynd sem á lítt skylt við veruleikann í okkar litla, friðsæla landi. Við lifum í síbreytilegum heimi og í landi þar sem náttúruvá vofir stöðugt yfir, svo ekki sé minnst á loftslagsbreytingar. Norðurslóðir geta sett landið í nýtt alþjóðlegt samhengi á þessari öld þar sem stórveldin eiga ríka hagsmuni og ekki er hægt að ganga að því sem vísu að þróun á norðurslóðum verði friðsamleg til langrar framtíðar.

Hæstv. forseti. Við lifum á nýrri öld í nýrri heimsmynd og nútíminn krefst þess að við séum alltaf skrefinu á undan.