151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, um mansal.

Mansal er gróft mannréttindabrot sem felst í að brjóta gegn friðhelgi einstaklings. Brotastarfsemin beinist gegn frjálsræði brotaþola og helgustu persónuréttindum í þeim tilgangi að hagnýta líkama viðkomandi, vinnukrafta eða þekkingu í annars þágu.

Í nýjustu skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi hérlendis kemur fram að margt bendi til að skipulagt vændi hafi aukist hér á landi og vísbendingar séu um að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal, einkum vinnumansal innan byggingariðnaðar, veitingarekstrar svo og ferðaþjónustu. Samkvæmt skýrslum frá ríkislögreglustjóra í gegnum árin er birtingarmyndum mansals á Íslandi að fjölga og vinnumansali og burðardýrum í fíkniefnamálum. Í mars 2019 kynntu stjórnvöld áherslur í baráttunni gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Áherslurnar mæla fyrir um tíu aðgerðir. Þar á meðal er kveðið á um endurskoðun löggjafar á sviðinu og er frumvarpið liður í þeirri aðgerð.

Tilefni frumvarpsins er að uppfæra ákvæði almennra hegningarlaga í samræmi við lagaþróun á Norðurlöndum, alþjóðlega sáttmála og athugasemdir GRETA, sérfræðingahóps Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. GRETA hefur sótt Ísland heim í tvígang frá því að Ísland fullgilti samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali árið 2012. Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með því hvort aðildarríki samningsins uppfylli skyldur sínar samkvæmt honum á fullnægjandi hátt. Seinni skýrsla GRETA um Ísland var birt í mars 2019 en þar er sérstaklega gagnrýnt að ekki skuli vera kveðið á um nauðungarhjónaband, þvingað betl eða þvinguð afbrot í íslenskri löggjöf um mansal.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til er leitast við að tryggja með enn skýrari hætti að íslensk stjórnvöld standi við þær skuldbindingar sem þau hafa tekist á hendur með því að fullgilda samninga á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins sem hafa það að markmiði að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi og mansali. Þá hefur verið tekið mið af samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um nauðungarvinnu. Núgildandi ákvæði hegningarlaga um mansal hefur lítið verið beitt í framkvæmd og hafa einungis þrjú mál komið til kasta dómstóla frá því að ákvæðið kom inn í almenn hegningarlög árið 2003.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar er lúta að refsinæmi mansals í þeim tilgangi að bæta enn frekar vernd þolenda og auðvelda málsókn á hendur þeim sem ábyrgir eru fyrir brotunum. Annars vegar eru lagðar til breytingar á tilgangi mansals og hins vegar á verknaðaraðferð. Bætt er við hagnýtingartegundum í samræmi við þekktar birtingarmyndir mansals og m.a. tekið mið af athugasemdum skýrslu GRETA um Ísland frá 2019 þar sem sérstaklega er kallað eftir að íslensk refsilöggjöf veiti þeim brotaþolum vernd sem hagnýttir eru í nauðungarhjónaband, til að betla, til að fremja refsiverðan verknað eða í nauðungarþjónustu. Þá hefur þrældómi eða ánauð verið bætt við upptalningu á hagnýtingartegundum ákvæðisins.

Breytingar eru einnig lagðar til er lúta að verknaðaraðferð sem beitt er. Horfið er frá tilvísun til annarra ákvæða almennra hegningarlaga þar sem það er talið of takmarkandi. Breytingartillögurnar fela í sér að hótun þurfi ekki að fela í sér hótun um refsiverðan verknað heldur aðeins hótun um að framkvæma eitthvað sem þolandinn óttast, t.d. að hóta viðkomandi að hann verði kærður til lögreglu eða gerandi nýti sér annan ótta þolanda, til að mynda vatnshræðslu.

Markmið breytinganna er því að útvíkka ákvæði 227. gr. a í samræmi við birtingarmyndir mansals hérlendis og þær verknaðaraðferðir sem beitt er við hagnýtingu þolenda í þeim tilgangi að fleiri mál fái framgang innan réttarvörslukerfisins. Með því er tilgangi meginefnis frumvarpsins náð er lýtur að því að treysta enn frekar vernd þolenda mansals, ekki síst kvenna og barna.

Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við fulltrúa ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og Héraðsdóm Reykjavíkur, auk fulltrúa frá Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitinu og Alþýðusambandi Íslands. Þá voru drög að frumvarpinu send samráðshópi um mansal en hann skipa aðilar sem eru ábyrgir fyrir aðgerðum á grundvelli áhersluskjals stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Lagt er til að frumvarpið öðlist þegar gildi.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.