Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

girðingarlög.

145. mál
[14:55]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á girðingarlögum þar sem ætlunin er að koma fram sanngirnissjónarmiðum í málum er kunna að koma upp þegar t.d. mikill efnahagslegur getumunur er á aðilum sem um ræðir eða ef krafa um girðingu virðist sett fram til að ná öðrum markmiðum en hefðbundið er. Meðflutningsmenn eru þingflokkur Miðflokksins eins og hann leggur sig og langar mig nú að segja nokkur orð um efnisatriði málsins.

Í 5. gr. girðingarlaga, nr. 135/2001, kemur fram sú meginregla að vilji umráðamaður lands girða það eigi hann rétt á að krefjast þess að þeir sem land eiga að fyrirhuguðu girðingarstæði greiði girðingarkostnaðinn að jöfnu að teknu tilliti til lengdar girðingar fyrir landi hvers og eins. Er sú regla eðlileg og er ekki gert ráð fyrir að horfið verði frá þeirri skipan sem meginreglu. Eigi að síður þykir rétt að slá þann varnagla að reglunni verði ekki beitt ef sú niðurstaða yrði auðsjáanlega talin ósanngjörn gagnvart þeim sem kröfunni er beint að.

Við mat á því yrði einkum horft til stöðu aðila, ekki síst fjárhagslegrar stöðu. Sé áberandi munur á henni milli aðila þannig að umtalsvert halli á þann sem kröfunni er beint að, og ætla mætti að þátttaka í greiðslu kostnaðarins yrði honum umtalsvert þyngri í skauti, stæðu líkur almennt til þess að ósanngjarnt yrði talið að verða við kröfunni að hluta eða öllu leyti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að undantekningarregla 2. mgr. 5. gr. hljóði þannig að krafa skuli aðeins tekin til greina að því marki að hún verði ekki talin ósanngjörn. Getur þannig ýmist komið til þess að greiðsluþátttaka þess sem kröfu um samgirðingu er beint að verði felld niður með öllu eða hún lækkuð þannig að hún teljist ekki lengur ósanngjörn.

Við mat á sanngirni kröfu skal einnig líta til atvika að baki henni enda kann að koma upp að einhver slík atvik geri að verkum að ósanngjarnt yrði talið að verða við henni. Mætti þar sem dæmi nefna atvik af því tagi að líkur yrðu taldar á að krafan væri einkum sett fram til að ná fram óskyldu markmiði, svo sem um kaup jarðarinnar. — Og því miður þekkjum við dæmi þess á undangengnum árum.

Ekki er gert ráð fyrir að við mat á því hvort krafa um samgirðingu teljist ósanngjörn verði sérstaklega horft til mismunandi gagns girðingarinnar fyrir aðila. Verði girðingin hins vegar talin þarflítil báðum eða öllum aðilum í ljósi eðlilegra nota jarðanna aukast líkur á því að krafa um samgirðingu yrði talin sett fram til að ná fram óskyldu markmiði og þar með ósanngjörn vegna atvika að baki henni.

Lagaákvæði sem kveða á um ósanngirni eru í eðli sínu matskennd en fyrir þeim eru nokkur fordæmi í lögum. Þar sem um er að ræða ákvæði sem kveður á um undantekningu frá meginreglu er eðlilegt að ákvæðið verði túlkað þröngt líkt og dómafordæmi um álík ákvæði annarra laga gefa til kynna.

Samkvæmt gildandi lögum skulu úrskurðaraðilar samkvæmt 7. gr. m.a. úrskurða um kostnaðarskiptingu vegna girðingar. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á því en meðal þeirra álitaefna sem komið geta til kasta úrskurðaraðila samkvæmt ákvæðinu verða sjónarmið um sanngirni krafna um kostnaðarskiptingu samgirðinga. Þau atriði sem gert er ráð fyrir að framvegis geti komið til skoðunar við kostnaðarskiptingu eru þess eðlis að rétt þykir að a.m.k. einn fagaðila sé löglærður. Í því skyni er með 2. gr. frumvarpsins lagt til að sá fagaðili sem tilnefndur er af sýslumanni samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 7. gr. skuli uppfylla skilyrði þess að vera skipaður héraðsdómari samkvæmt ákvæðum dómstólalaga.

Loks er í frumvarpinu kveðið á um sex mánaða málshöfðunarfrest vilji aðili ekki una niðurstöðu úrskurðaraðila, hvort sem er að hluta eða öllu leyti. Gert er ráð fyrir að slíkt dómsmál megi höfða fyrir dómi í þinghá þar sem hin umdeilda girðing er. Liggi girðingin um fleiri en eina þinghá ráði málshöfðandi í hverri þeirra hann sæki málið. Jafnframt verði heimilt að höfða slíkt mál samkvæmt reglum V. kafla laga um meðferð einkamála.

Virðulegur forseti. Þetta mál er þess eðlis að þónokkur dæmi hafa komið upp á undanförnum árum og misserum þar sem ljóst má vera að ásókn í jarðir hafi náð því stigi að aðilar tilkynntu um fyrirhugaða samgirðingu, þ.e. girðingu á landamerkjum, í þeim augljósa tilgangi að ýta á um sölu jarðar sem áður hafði ekki náðst árangur með að kaupa. Þegar slík ósanngjörn staða í efnahagslegu tilliti kemur upp þarf sá sem minna afl hefur fjárhagslega að eiga möguleika á að bera fyrir sig sanngirnissjónarmið eins og hér er mælt fyrir um. Atriði sem þetta hefur til að mynda komið upp á norðausturhorni landsins, án þess að ég ætli að fara að tilgreina sérstök dæmi. Ég held að það væri til mikilla bóta að landeigendur ættu þann valkost að skjóta máli sínu til úrskurðar með þessum hætti þegar megintilgangur samgirðingar virðist fyrst og fremst vera að þvinga menn til sölu jarðar.

Að lokum legg ég til að þessu máli verði að aflokinni umræðu vísað til atvinnuveganefndar.