Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:02]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Frumvarpið er liður í endurskoðun á lagaumhverfi um þjónustu í þágu farsældar barna. Um er að ræða breytingar sem hafa það að markmiði að setja barnið í forgrunn þegar kemur að þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Frumvarpið sem hér er mælt fyrir er ein af afurðum samráðs sem var ýtt úr vör á vormánuðum 2018 þegar boðað var til ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna. Í framhaldi af ráðstefnunni skrifuðu fimm ráðherrar, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir viljayfirlýsingu í þeim tilgangi að brjóta niður múra milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Í kjölfarið var skipaður stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna og í honum störfuðu fulltrúar frá öllum þeim ráðuneytum sem skrifuðu undir umrædda viljayfirlýsingu. Jafnframt var skipuð þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna sem í var boðið fulltrúum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Í virku samráði við hagsmunaaðila hafa þessir aðilar, þar með talin þingmannanefnd um málefni barna, unnið að fjölbreyttum verkefnum og tillögum að breytingum á löggjöf um þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Ber þar helst að nefna frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem er nú til meðferðar hjá hv. velferðarnefnd. Með því frumvarpi eru lagðar til stórar kerfisbreytingar með áherslu á aukna samvinnu þvert á kerfi og bætta samfellu í þjónustu við börn þar sem hagsmunir barna eru ávallt hafðir að leiðarljósi. Samhliða eru til meðferðar í hv. velferðarnefnd frumvörp til laga um nýjar stofnanir félagsmálaráðuneytisins, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þessum breytingum. Ef þessar miklu kerfisbreytingar eiga að ná fram að ganga þarf jafnframt að fara yfir og aðlaga aðra löggjöf að nýrri hugsun í samþættingu þjónustu og samvinnu milli þjónustukerfa.

Með frumvarpinu, sem ég mæli hér fyrir, um breytingar á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, er stigið fyrsta skrefið í þeirri yfirferð. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að þjónustu við börn, sérstaklega fötluð börn, og er því þýðingarmikið að verkefni hennar í samþættingu þjónustu séu skýr. Frumvarpinu er ætlað að tryggja það. Endurskoðun lagaumhverfis stofnunarinnar var jafnframt talin kalla á að hugtakanotkun yrði tekin til sérstakrar skoðunar. Þrátt fyrir að ytra umhverfi hennar hafi breyst, t.d. með tilkomu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, felur frumvarpið í sér nokkrar breytingar á skilgreiningum og hugtakanotkun.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á markmiðsákvæði og ýmsum skilgreiningum laganna. Meðal annars er lagt til að í markmiðsgrein laganna verði sérstök tilvísun til þess að þjónusta stofnunarinnar sé fjölþætt og fjölskyldumiðuð með áherslu á snemmtæka íhlutun. Þá eru lagðar til breytingar á skilgreiningum hugtaka en við útfærslu þeirra hefur m.a. verið litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þessum breytingum er ætlað að skýra þjónustu og ramma utan um markhópa Greiningar- og ráðgjafarstöðvar.

Í frumvarpinu eru, eins og áður sagði, lagðar til breytingar sem eiga að stuðla að samþættingu þjónustu og auknu samstarfi þjónustuveitenda. Lögð er rík áhersla á að ryðja í burtu hindrunum sem kunna að vera á því að börn njóti þjónustu sem þau eiga rétt á. Þá er haft að leiðarljósi að samvinna þjónustukerfa sé best til þess fallin að stuðla að því að barn fái þjónustu við hæfi.

Í frumvarpinu felst m.a. að Greiningar- og ráðgjafarstöð tekur þátt í stuðningsteymum sem eru stofnuð í kringum börn sem stofnunin þjónustar með beinum hætti. Hér er áhersla lögð á þriðja stigs þjónustu sem Greiningar- og ráðgjafarstöð veitir börnum. Samhliða er í frumvarpinu lögð aukin áhersla á hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar þegar kemur að stuðningi við fyrsta og annars stigs þjónustu. Í því sambandi fær Greiningar- og ráðgjafarstöð skýrt hlutverk við að veita þjónustuveitendum, þar á meðal sveitarfélögum, faglega ráðgjöf, leiðbeiningar og stuðning þar sem þörf er á sérþekkingu á fötlunum barna, íhlutunarleiðum og stuðningsþörfum. Til að geta sinnt þessum mikilvægu verkefnum er í frumvarpinu jafnframt lagt til að fest verði í sessi staða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar sem faglegrar þekkingarmiðstöðvar þegar kemur að fötlunum barna með tilliti til þjónustuþarfa.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem hafa áhrif á einstök verkefni stofnunarinnar. Til að mynda fær Greiningar- og ráðgjafarstöð heimildir til að setja reglur um fyrirkomulag frumgreininga og langtímaeftirfylgd. Markmið þessara breytinga er að búa til skýrari og fyrirsjáanlegri ramma utan um þessi mikilvægu verkefni. Eins og áður hefur verið fjallað um eru þegar til meðferðar hjá velferðarnefnd frumvörp til laga sem breyta fyrirkomulagi stofnana á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins, sérstaklega þegar kemur að börnum. Í frumvarpinu er staða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar gagnvart þessum stofnunum skýrð. Meðal annars er fjallað um samstarf sem gert er ráð fyrir að verði á milli Greiningar- og ráðgjafarstöðvar og nýrrar stofnunar, Barna- og fjölskyldustofu, þegar kemur að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til minni háttar breytingar á nafni stofnunarinnar sem fékk nafnið Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins með lögum um málefni fatlaðra sem voru sett árið 1983. Nýtt nafn endurspeglar hvernig vísað er til stofnunarinnar í daglegu tali, þ.e. sem Greiningar- og ráðgjafarstöðvar en ekki Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram er frumvarp þetta liður í stórum kerfisbreytingum þegar kemur að þjónustu í þágu barna með eflingu samþættrar þjónustu og samvinnu þvert á kerfi. Gert er ráð fyrir gildistöku þeirra í upphafi árs 2022. Ég hef mikla trú á að þessar breytingar verði til hagsbóta fyrir börn og barnafjölskyldur. Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.