151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:10]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að forgangsraða öllu þegar kemur að börnum. En ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni þegar hann dregur þá ályktun að ríkisstjórnin sé ekki með skýra sýn í því efni. Ég ætla að svara spurningum hans algjörlega beint. Í fyrsta lagi bættum við í upphafi þessa árs við 80 milljónum til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar til að vinna á biðlistum. Samhliða því erum við að gera þessar stóru kerfisbreytingar hér til að færa þjónustuna framar. Hugsunin með þessari nýju kerfisbreytingu sem við erum að gera — og erum með fjármagn til þess á þessu ári til að undirbúa innleiðingu á, það er gert ráð fyrir tæpum 2 milljörðum á ári í fjármálaáætlun til að innleiða nýju breytingarnar sem ég nefndi og þetta frumvarp er hluti af — er að þörfin fyrir þriðja stigs úrræði dragist væntanlega saman. Þannig að vegna þess að við leggjum áherslu á fyrsta og annars stigs úrræði muni þörfin á þriðja stigs úrræði að einhverju leyti dragast saman, eins og reynslan hefur sýnt í sveitarfélögum sem hafa stigið tiltölulega langt í þá veru að samþætta þjónustu með þessum hætti. En til að brúa þetta bil þá var innan félagsmálaráðuneytisins ráðstafað 80 milljónum í upphafi ársins til að vinna á biðlistum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar en við sögðum jafnframt þegar við gengum frá þeirri fjárveitingu að það mætti gera ráð fyrir að þær stóru lagabreytingar sem við værum að vinna myndu draga úr þörfinni á þriðja stigs þjónustu.

Þá kemur að Þroska- og hegðunarstöð og BUGL sem heyrir undir hæstv. heilbrigðisráðherra. Að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins buðum við heilbrigðisráðuneytinu að við myndum sameiginlega kortleggja biðlista eftir þriðja stigs þjónustu fyrir börn. Þrátt fyrir að við værum að vinna á því sem lýtur að Greiningar- og ráðgjafarstöðinni, sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið, þá erum við sameiginlega að fara yfir það og er tillagna og niðurstaðna í því að vænta. Engu að síður segi ég að við erum með þessu frumvarpi og með skyldum frumvörpum og á yfirstandandi ári að stórauka fjárveitingar til málefna barna. Það er verið að auka fjárveitingar (Forseti hringir.) til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar til að vinna á biðlistum og við gerum ráð fyrir að þessar kerfisbreytingar muni að einhverju leyti líka (Forseti hringir.) draga úr þörfinni fyrir þriðja stigs þjónustu.