Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:19]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við settum 80 milljónir í Greiningar- og ráðgjafarstöð í upphafi árs til þess að vinna á biðlistum var jafnframt gerð grein fyrir því að við værum í þeirri vinnu sem þetta frumvarp lýtur að, grundvallarkerfisbreytingu sem ætti að einhverju leyti að geta dregið úr bið eftir þriðja stigs þjónustu, sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin flokkast undir. Það sem lýtur að þeirri vinnu sem við erum að kortleggja varðandi þessa þriðja stigs þjónustu, er að hluti hennar heyrir undir heilbrigðisráðuneytið, BUGL og Þroska- og hegðunarstöð en ekki undir félagsmálaráðuneytið. Við erum að reyna að kortleggja það heildrænt með hvaða hætti hægt er að grípa þar inn. Félagsmálaráðuneytið hafði frumkvæði að því að setja sig í samband við heilbrigðisráðuneytið til að geta unnið slíkar greiningar og það er sú greiningarvinna sem er í gangi.

Til þess að geta innleitt þetta frumvarp hér erum við síðan á yfirstandandi ári að tryggja þessa kerfisbreytingu, sem hv. þingmaður á heiður skilinn fyrir að hafa af mikilli þekkingu og einlægri hugsjón, vil ég segja, tekið þátt í að forma. Við erum að tryggja fjármagn á þessu ári til þess að innleiða hana. Það á eftir atvikum að geta dregið úr þörf fyrir þriðja stigs þjónustu. Við erum líka búin að setja inn í fjármálaáætlun þá tæpu 2 milljarða sem þarf inn í þessa nýju kerfisbreytingu, inn í þessa hugsun sem þetta frumvarp mun innleiða. Við erum að fara inn í nýja tíma í þessum málum og það er gríðarlega mikilvægt að hafa það hugfast að búið er að tryggja fjármagn í það.

Þannig að ég segi bara aftur: Við setjum nú stóraukið fjármagn inn í þennan málaflokk. Þurfum við að setja meira? Já. Er sá sem hér stendur mótfallinn því? Nei, ég er mjög sammála þeim báðum þingmönnum sem komið hafa hér og sagt það. Ég hef ítrekað verið talsmaður þess að við aukum það fjármagn sem við setjum í málefni barna vegna þess að það er engin fjárfesting betri. Þannig að þú færð ekki þann sem hér stendur til að segja: Nei, nú er búið að setja nóg. — Það þarf að setja meira en við setjum nú mjög mikið og höfum verið að gera það og erum að auka fjármögnun á næstu árum enn frekar.