Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:23]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt kjarninn í þessum stóru kerfisbreytingum, þ.e. að fara að veita þjónustuna fyrr og forðast að það þurfi alltaf að fara beint í þriðja stigs þjónustu, greiningarnar eru hluti af þriðja stigs þjónustu. Þarna erum við komin að kjarnanum í þessari stóru kerfisbreytingu og kjarnanum í því sem öll vinnan og þetta frumvarp snýst um, þ.e. hvernig við getum veitt þjónustuna fyrr. Og sveitarfélögin eru óðum að stíga stærri skref í þá veru. Reykjavíkurborg hefur verið að stíga ákveðin skref. Hafnarfjörður hefur verið að stíga ákveðin skref með verkefni sem heitir Brúin í Hafnarfirði, Austurlandsmódelið hefur stigið ákveðin skref sem öll miða að þessu sama, þ.e. að veita þjónustuna fyrr. Þá er gert ráð fyrir því að það dragi úr þörf fyrir þriðja stigs þjónustu sem er þar sem biðlistarnir hafa verið að lengjast, vegna þess að það er kjarninn í snemmtækri íhlutun að veita þjónustuna fyrr til að þurfa ekki þunga þjónustu síðar.

Talað er um að það vanti pening inn í þetta. Við tókum alla þessa vinnu, öll þau frumvörp sem snúa að þessari kerfisbreytingu og greindum. Það er eiginlega ekkert sem hefur verið greint jafn ítarlega og einmitt kostnaðurinn við þetta, vil ég segja, alla vega ekki í minni ráðherratíð. Fyrst fengum við hagfræðing sem sendi út 700 bréf á alla aðila sem komið höfðu að vinnunni við að fá upplýsingar um hvað þetta myndi kosta. Niðurstaðan úr því var 1.300–1.500 millj. kr. á ári. Við vorum ekki alveg nógu sátt við það þannig að við fengum annað teymi til að fara dýpra ofan í það og niðurstaðan þar var á svipuðum nótum. Nú er búið að tryggja í fjármálaáætlun næstu ára, vegna þess að við getum ekki gengið lengra, það er fjármálaáætlunin, frá gildistöku laganna, á bilinu 1,7–2 milljarða á ári, sem eru hærri mörk þess sem kostnaðargreiningin gerði ráð fyrir. Þess vegna sit ég ekki undir því að hér sé ekki verið að setja pening í málið, um leið og ég er sammála hv. þingmanni um að það þurfi meira, vegna þess að þetta er í fyrsta sinn í stóru máli — eða það gerist allt of oft hér á Alþingi að ekki er settur nægur peningur í mál — sem við tryggjum einmitt fjármagn í þessa risastóru kerfisbreytingu.