151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:08]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að taka undir með fyrri ræðumanni en ég ætla að ræða um virðingu Alþingis sem byggir ekki síst á framkomu þingmanna hvers gagnvart öðrum. Oftar en ekki eru það þeir þingmenn sem mest tala um virðingu þingsins sem draga hana einmitt niður með orðræðu sinni og framkomu gagnvart fjölmiðlum og reglum og skyldum okkar sem þingmanna, eins og nýleg dæmi sanna. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hefur rætt um klæðaburð þingmanna á fundum þingsins. Þar er ég sammála hv. þingmanni og sorglegt hvernig þingmenn komast upp með að sýna vanvirðingu sína við Alþingi með óviðeigandi klæðaburði.

Virðulegi forseti. Ég vil líka gera athugasemd við það hvernig framkomu þingmenn og ráðherrar hafa mátt þola þegar andlát á sér stað í fjölskyldum þeirra. Nýlega missti hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, föður sinn. Ráðherra og fjölskylda hennar fengu ekki svigrúm til að syrgja látinn föður og afa. Ráðist var á embættisfærslur ráðherrans í fjölmiðlum og hér í þingsal þegar hún hefði átt að fá frið til að syrgja með fjölskyldu sinni.

Það sama gerðist þegar hv. þm. Sigríður Á. Andersen var dómsmálaráðherra og varð fyrir sárum móðurmissi. Fyrir rétt um tveimur árum birti Mannréttindadómstóll Evrópu dóm í svokölluðu landsdómsmáli. Það varð nokkrum þingmönnum tilefni til að gagnrýna þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra mjög harkalega strax og fréttin flaug um ljósvakana sem létu ekki sitt eftir liggja. Sama dag lést móðir ráðherrans í faðmi fjölskyldunnar en ráðherrann mátti þola harða gagnrýni þingmanna og fjölmiðla allan daginn og engin grið gefin.

Það er of langt gengið, virðulegi forseti, þegar svona er þjarmað að ráðherrum og þingmönnum af samþingsmönnum og fjölmiðlafólki á sorgarstundu. Traust á störfum okkar sem hér sitjum í krafti kjósenda verður aldrei meira en sú virðing sem við sýnum hvert öðru og Alþingi sem æðstu stofnun landsins.