151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:15]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Þó að yfirstandandi heimsfaraldur hafi lagt dauða hönd á flesta fleti daglegs lífs á einhverjum tímapunkti hefur hann hins vegar gætt almenna tækninotkun og tækniskilning stórauknu lífi. Jafnvel nefndarfundir Alþingis hafa færst yfir á fjarfundaformið. Eins höfum við séð afburða smitrakningarapp þróað hér á mettíma.

En hvar er Alþingisappið? Í grunnstefnu okkar Pírata leggjum við áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir. Væri ekki tilvalið að almenningur gæti með þessu móti fylgst betur með því sem fram fer hér á vettvangi lýðræðisins? Hlaðvörp hafa náð miklum vinsældum og með Alþingisappinu gæti fólk hlustað og horft á þingfundi á svipaðan hátt og gert er með vinsæl hlaðvörp. Appið gæti stuðlað að því að halda fólki upplýstu um þingmál sem eru í meðförum þingsins. Fólk gæti vaktað tiltekin mál og fengið tilkynningar þegar málin færu á dagskrá eða til að mynda til atkvæðagreiðslu eða umsagnar. Fólk gæti fengið tilkynningar um mál sem væru nýkomin inn í samráðsgátt stjórnvalda, upplýsingar um kosningar og kosninganiðurstöður. Þar gætu verið aðgengileg myndbönd um hvernig Alþingi starfar, skrá yfir tölvupóstföng þingmanna og þar fram eftir götunum. Með appinu gætu ræður þingmanna verið aðgengilegar á auðdeilanleigu formi þannig að þingmenn þyrftu ekki að nota skjáupptökur til að deila ræðunum sínum, eins og ég mun þurfa að gera eftir þessa ræðu hér á eftir.

Þó að lýðræðið kosti jú peninga, virðulegi forseti, þyrfti þetta alls ekki að vera dýrt og gæti jafnvel fjármagnað sig sjálft með sölu á Alþingisvarningi í gegnum netið. Önnur þjóðþing hafa gert þetta, Bretland til að mynda. Ég hvet áhugasama til að hlaða niður þingappi breska þingsins sem heitir, með leyfi forseta, „UK Parliament“ eða UK þing. Ég vil hvetja Alþingi til að skoða þetta alvarlega og uppfæra Alþingi enn meira, styrkja beint lýðræði og eflingu gagnsærrar stjórnsýslu á þeim formum sem bjóðast.