151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er álag á bráðamóttöku Landspítalans og fólk er beðið að leita annað. Landspítali – háskólasjúkrahús biður fólk sem veikist eða lendir í vægum slysum sem krefjast ekki bráðrar aðstoðar að leita frekar á heilsugæsluna eða Læknavaktina. Raunin á auðvitað að vera sú að ef fólk veikist lítillega eða er með minni háttar meiðsl á það aldrei að leita á bráðamóttökuna. Bráðamóttakan er jú bráðamóttaka og á að taka á móti okkar veikasta fólki.

En af hverju er þetta svona, virðulegur forseti? Ég ætla ekki að segja að ég viti svarið við því öllu. En af hverju erum við ekki að efla enn frekar heilsugæsluna og Læknavaktina? Hér á höfuðborgarsvæðinu er ein læknavakt fyrir þetta risastóra svæði. Þar kemur allt þetta veika fólk saman í einu herbergi þar sem það bíður lengi eftir aðstoð. Nú ættu flestir landsmenn að þekkja vel inn á Heilsuveru. Af hverju erum við ekki að auka fjarlækningar í þessum þáttum líka? Af hverju getur þú ekki pantað zoom-fund með lækninum eða fengið zoom-aðstoð heim til þín þegar slíkt steðjar að? Nýleg dæmi eru um að fólk þurfi að bíða upp í eina og hálfa klukkustund á Læknavaktinni til að fá vottorð um staðfestingu á því að það sé ekki smitað af Covid svo að það geti ferðast úr landi? Þarna kemur heilbrigður einstaklingur, sem er nýbúinn að fara í Covid-próf, inn á Læknavaktina og þarf að bíða innan um allt veika fólkið til þess að fá stimpil frá lækni.

Virðulegur forseti. Þetta gengur ekki. Við hljótum að geta nýtt fjárfestinguna í tækninni okkar betur. Talandi um fjárfestingu: Fjárþörfin til heilbrigðiskerfisins er mikil og hún fer bara vaxandi með öldrun þjóðarinnar. Þetta er stærsti liðurinn í okkar fjárlögum, þ.e. útgjöld til heilbrigðiskerfisins. Við verðum einfaldlega að hugsa málin upp á nýtt, leyfa nýsköpun og tækniþróun að blómstra í þessum geira. Það er eina leiðin til að við getum haldið áfram að veita góða heilbrigðisþjónustu þegar fólki fjölgar og öldruðum fjölgar.