151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:26]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Nú berast fréttir af því frá a.m.k. tveimur löndum Evrópusambandsins að þau séu farin að hugsa út fyrir boxið, eins og vinsælt er að segja stundum, í tengslum við bólusetningar og viðbrögð við heimsfaraldrinum. Ef ég hef skilið fréttir rétt munu danski forsætisráðherrann og austurríski kanslarinn fara saman á morgun, ef mér skjátlast ekki, til Ísraels og kanna möguleika á samstarfi við Ísrael eða a.m.k. viða að sér upplýsingum um bóluefnaframleiðslu og áframhaldandi viðbrögð við þessari veiru sem, ef marka má sérfræðinga, mun væntanlega vera með okkur næstu árin ef ekki áratugina.

Þessar fréttir koma nú frá Danmörku til viðbótar við þá frétt sem var hér fyrir nokkrum dögum um að Danir hefðu áhuga á því og hefðu leitað, a.m.k. með óformlegum hætti, hófanna með kaup á viðbótarskömmtum af bóluefninu AstraZeneca frá Sviss. Sviss hafði á þeim tímapunkti tekið ákvörðun um að nota það ekki, sat uppi með miklar birgðir og situr enn þá uppi með miklar birgðir af því bóluefni, fyrir utan að hafa keypt gríðarlegt magn af bóluefni sem dugar svissnesku þjóðinni margfalt. Það er svo sem einboðið að Svisslendingar þurfi að losa sig við það.

Ég nefni þetta hér vegna þess að umræður hér um mögulegt samstarf Íslendinga við Pfizer, sem ekki gekk eftir, var gagnrýnt af sumum, einkum vegna þess að þar með væri gengið á bak einhverjum samningum Íslands við Evrópusambandið. Ég held að menn ættu að hugleiða þetta og íslensk stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að flýta (Forseti hringir.) bólusetningu hér og kaupa þá skammta sem standa okkur til boða, m.a. hjá öðrum löndum EFTA-ríkjanna eða Evrópusambandsins.