151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á heimasíðu Öryrkjabandalagsins er vitnað í skýrslu Félagsvísindastofnunar til félagsmálaráðuneytisins um stöðu þeirra sem reiða sig á mataraðstoð hjá hjálparsamtökum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í skýrslunni kemur skýrt fram hve veik staða þeirra sem reiða sig á örorkulífeyri og atvinnuleysisbætur er. […] Þátttakendur höfðu flestir þurft að nýta sér aðstoðina oftar en einu sinni síðustu 12 mánuði á undan könnuninni. Hlutfall þeirra sem þurfa á aðstoð að halda í hverjum mánuði var hæst hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, 44% og Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjavík, 36%. 30% þeirra sem leita til Fjölskylduhjálpar Íslands á Suðurnesjum koma í hverjum mánuði. […]

Langflestir sem tóku þátt í könnuninni sögðust leita aðstoðar vegna atvinnuleysis eða lágra tekna. Þegar ráðstöfunartekjur þeirra sem svöruðu eru skoðaðar kemur í ljós að mikill meiri hluti þeirra er með ráðstöfunartekjur undir 300.000 kr. á mánuði.

Flestir sem leita aðstoðar hjá Hjálpræðishernum, eða 53%, eru með ráðstöfunartekjur undir 200.000 kr.

Að meðaltali var húsnæðiskostnaður þátttakenda 158.000 kr. á mánuði, eða um 62% að jafnaði af ráðstöfunartekjum heimilisins.

Í reiknivél félagsmálaráðuneytis er grunnviðmið neyslu fyrir árið 2019 fyrir einstætt foreldri með eitt barn og engan bíl 129.120 kr. á mánuði, án húsnæðiskostnaðar. Miðað við meðalhúsnæðiskostnað þeirra sem tóku þátt í könnuninni upp á 158.000 kr., er ljóst að ráðstöfunartekjur þeirra þurfa að meðaltali að vera 287.120 kr.“

Stjórnvöldum ber skylda til að draga úr sárafátækt, hvað þá fátækt. Ellilífeyrisþegum, atvinnulausum og fötluðu fólki á að vera tryggð mannsæmandi afkoma. Afkoma sem dugar fyrir grunnþörfum, jafnvel einhverjum smálúxus af og til. Það er algjört lágmark að fólk eigi fyrir lyfjum og lækniskostnaði þegar lífsnauðsyn er á. 129.000 kr., án húsnæðiskostnaðar, og 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust er það sem á að koma og á að vera. Fólkið fyrst, svo allt hitt, segir Flokkur fólksins.