151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Jónas Hallgrímsson, náttúrufræðingur og skáld, sagði einhvern tímann í einhverju bréfi til kunningja síns: Náttúrufræðin er allra vísinda indælust. Þetta eru orð að sönnu og við landsmenn höfum nú aldeilis fengið að kynnast því að undanförnu. Við höfum verið á fróðlegu námskeiði daglega um náttúru Íslands og þau lögmál sem eru að verki í iðrum jarðar hér á Íslandi, bæði í fróðlegum þáttum í sjónvarpinu og eins höfum við fengið nokkuð snögga skyndikúrsa um miðjar nætur. Þegar ég gekk hér inn áðan þá heyrði ég á tal tveggja þingmanna þar sem þeir voru einmitt að ræða jarðfræði Íslands og mér heyrðist þeir hafa verið komnir fram til ársins 1180 — og þeir standa enn þarna frammi. Þannig að við erum öll að verða dálitlir sérfræðingar í jarðvísindum, við Íslendingar, sem er vel. Það verður ekki nógsamlega undirstrikað hvað það er mikilvægt fyrir okkur að þekkja náttúruna og þekkja lögmál hennar. Það er það sem varðar öllu um líf okkar og hag í þessu landi.

Hér í dag verður á dagskrá þingsins mál sem er afskaplega mikilsvert og varðar aðferð sem þróuð hefur verið á Íslandi, hefur verið kölluð Carbfix og verður vonandi til þess að halda nafni íslenskrar þekkingar á lofti um ókomna tíð. Það verður með mikilli ánægju sem ég mun fyrir mitt leyti taka þátt í afgreiðslu þess máls og get þá alla vega sagt, þegar fram líða stundir, að ég hafi ekki þvælst fyrir.