151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

uppbygging geðsjúkrahúss.

395. mál
[16:58]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að við séum komin á þann stað að hér sé mætt birtingarmyndin á muninum milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Samfylkingin vill styðja við og byggja hér öflugt opinbert heilbrigðiskerfi sem þjónar öllum jafnt. Það breytir ekki því að það eru að sjálfsögðu sjálfstætt starfandi geðlæknar víða í kerfinu og sem betur fer er það hluti af heilbrigðisþjónustunni. Samfylkingin studdi líka tillögu um að sálfræðingar færu inn í hið opinbera kerfi sjúkratrygginga vegna þess að sálfræðingar eru hluti af geðheilbrigðisþjónustunni. Við þurfum að tryggja aðgengi allra landsmanna að þessari geðheilbrigðisþjónustu. Það breytir ekki því að við þurfum líka að hafa mjög öflugt opinbert kerfi, hvort sem er um að ræða líkamleg veikindi eða geðræn og ég tel að við myndum valda miklu tjóni ef við myndum undanskilja algerlega geðapparatið frá Landspítalanum. Þetta er þjóðarsjúkrahús okkar og þarna er miðstöðin. Þarna fer fram umtalsverð þjónusta sem ekki er hægt að veita annars staðar í erfiðustu tilvikunum. Ég held að við eigum að hlúa að því kerfi sem þarna er.