151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

málefni atvinnulausra.

[13:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Stjórnarliðar segjast skilja vanda fólksins sem hefur misst vinnuna í atvinnukreppu, en gera þau það? Eftir bankakreppuna 2008 hækkaði vinstri stjórnin atvinnuleysisbætur upp í 95% af lágmarkslaunum og lengdi atvinnuleysistímabilið úr 36 mánuðum í 48 mánuði. Í góðærinu, á árunum 2013–2016, lét ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks atvinnuleysisbætur gossa niður í 75% af lágmarkslaunum og stytti atvinnuleysistímabilið í 30 mánuði. Ríkisstjórnin sem nú ríkir stærir sig af því að hafa hækkað atvinnuleysisbætur upp í 87% af lágmarkslaunum og lengt tekjutengda tímabilið fyrir suma atvinnulausa. Þau um 10.000 sem misstu vinnuna í febrúar fyrir ári síðan eða fyrr hafa ekki notið þeirra trakteringa hæstv. ríkisstjórnarinnar. Fyrir tveimur árum féll flugfélagið WOW en samdráttur hafði verið í ferðaþjónustunni í aðdraganda fallsins. Fólk sem missti vinnuna þá hefur klárað eða er u.þ.b. að klára sitt atvinnuleysisbótatímabil og á þann eina kost að leita til sveitarfélaga eftir aðstoð og til hjálparstofnana. Þetta fólk er í neyð. Það er pólitísk ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að láta þau bera þyngstu byrðarnar í atvinnukreppu.

Sveitarfélög og stéttarfélög hafa kallað eftir lengingu tímabils atvinnuleysisbóta. Samfylkingin hefur lagt slíkt til slag í slag og það hefur jafnóðum verið fellt af stjórnarliðum. Ég spyr: Hvers vegna vill hæstv. félags- og barnamálaráðherra ekki lengja tímabil atvinnuleysisbóta við þessar aðstæður? Hvers vegna ekki?