Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

málefni atvinnulausra.

[13:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn og í upphafi biðjast afsökunar á því að hafa verið eilítið seinn í salinn. Hv. þingmaður spyr út í atvinnuleysisbætur. Þessi ríkisstjórn, líkt og þingmaðurinn nefndi, hefur hækkað bætur. Við höfum lengt tekjutengda tímabilið, við höfum hækkað greiðslur til einstaklinga sem eru atvinnulausir og eru með börn á framfæri. Þar hefur verið hækkað það álag sem leggst á atvinnuleysisbætur. Sá sem hér stendur eða ríkisstjórnin hefur aldrei útilokað möguleikann á því að lengja bótatímabil. Ég hef sagt það og sérstaklega undanfarnar vikur að við höfum verið að fara yfir þau mál og skoða með hvaða hætti sé skynsamlegt að grípa þarna inn í. Við höfum átt góð samtöl um það við Samband íslenskra sveitarfélaga og erum að forma aðgerðir í þá veru að ná utan um þann hóp sem er búinn að vera atvinnulaus í 30 mánuði eða lengur eða er að detta inn á það. Það er gert með tvennt í huga: Annars vegar að tryggja framfærslu þessa fólks, sem er gríðarlega mikilvægt, og hins vegar að finna leiðir til að koma því í virkni samhliða og koma atvinnulífinu af stað, það hefur líka verið kallað eftir því af flokki hv. þingmanns og fleirum, og það er stefna ríkisstjórnarinnar að skapa störf. Við höfum verið að forma leiðir til að ná þessu hvoru tveggja. Ég bind vonir við að við getum kynnt þær á næstunni vegna þess að ég tek undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að ná utan um þessar fjölskyldur, ná utan um þessa einstaklinga. Það hefur ríkisstjórnin gert eins og ég rakti hér áðan, og það ætlum við okkur að gera áfram. Ég bind vonir við að við getum kynnt það á næstunni.