151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins.

[13:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra talar um virkni. Ég næ ekki hvers vegna í ósköpunum hann er að biðja um meiri virkni. Það vantar ekki jarðskjálftavirkni, það vantar ekki gosvirkni og sérstaklega ekki á Suðurnesjum. En þar er líka mesta atvinnuleysið, langmesta atvinnuleysið. Í dag eru um 25.000–30.000 manns atvinnulaus. Í kringum 1.300 manns eru dottin út af bótum. Á sama tíma, eða núna í janúar, fékk hæstv. félags- og barnamálaráðherra skýrslu til sín frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, sláandi skýrslu þar sem kemur fram að fólk er að reyna að tóra á undir 200.000 kr. á mánuði. Á sama tíma kemur fram að þetta fólk er að meðaltali að borga 160.000 kr. og allt upp í 200.000 kr. í leigu. Þar af leiðandi segir það sig sjálft að þetta fólk þarf að lágmarki 290.000–350.000 til að lifa af. En það er í flestum tilfellum að fá rétt um 200.000 kr. útborgað.

Ég spyr hæstv. félags- og barnamálaráðherra: Hvernig í ósköpunum á þetta fólk að lifa? Hvernig í ósköpunum á fólk að lifa þegar það kemur líka fram hjá félagsmálaráðuneytinu að bætur eru 129.120 kr. á mánuði fyrir einstætt foreldri án húsnæðis? Á þessi einstaklingur að lifa á þessu? Hvernig? Hvers vegna er húsnæðið ekki inni? Hvers vegna er enn verið að klóra sér í hausnum yfir virkni? Hvers vegna er þessu ekki hætt og eitthvað gert fyrir þetta fólk? Það segir sig sjálft að hvorki við né þetta fólk getur á nokkurn hátt lifað á þessum smánarbótum sem eru í dag enda er það allt hjá hjálparstofnunum. Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu. Er hæstv. ráðherra búinn að lesa skýrsluna og ætlar hann að bregðast við henni?