151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins.

[13:13]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var með allmargar spurningar. Ég ætla að reyna að stikla á því sem þessu tengist. Hv. þingmaður nefnir sérstaklega neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins sem birt eru af félagsmálaráðuneytinu en hafa verið reiknuð út eftir ákveðnum forsendum. Ég hef áður svarað þessu þegar hv. þm. Inga Sæland spurði um þetta nýverið. Þegar neysluviðmiðin voru birt í fyrra þá spratt þessi sama umræða upp. Þess vegna höfðum við frumkvæði að því að endurskoða þessi neysluviðmið, fara ofan í það með hvaða hætti þau væru samsett og það þarf fleiri aðila að því. Ég er sammála hv. þingmanni að þau endurspegla ekki þann kostnað sem þarf til að komast af í íslensku samfélagi. Þess vegna erum við að endurskoða þau, endurskoða grunninn undir því hvernig þau eru samsett. Það eru fleiri aðilar en bara félagsmálaráðuneytið sem koma að því. Síðan er þetta bara birt og reiknað með reglubundnum hætti eftir þeim forsendum sem viðmiðin byggja á.

Ríkisstjórnin hefur á þessu kjörtímabili og m.a. núna í kórónuveirufaraldrinum veitt verulega háar fjárhæðir í að ná utan um fólk og viðkvæma hópa. Við höfum ráðist í skattkerfisbreytingar á kjörtímabilinu. Við höfum ráðist í breytingar á barnabótakerfinu. Við höfum með margvíslegum hætti í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð tekið utan um fólk þar með breytingu sem ég rakti hér áðan í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Getum við gert meira? Já, við getum gert meira en við höfum sannarlega gert töluvert mikið. Hv. þingmaður fær félagsmálaráðherra aldrei til þess að segja að við séum búin að gera nóg. Það er ekki þannig. En erum við búin að gera talsvert mikið? Já, við erum búin að gera það. Við höfum haldið utan um fólk. Við höfum líka verið að gera kerfisbreytingar í húsnæðismálum en verkefnin eru ærin og þau halda áfram.