151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins.

[13:17]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður blandar hér saman því sem lýtur að virkni og mikilvægi hennar, að við séum með öflug virkniúrræði fyrir þá sem hafa verið atvinnulausir lengi, og síðan vinnu sem er í gangi við að endurskoða neysluviðmið. Það er mikilvægt að endurskoða neysluviðmiðin. Við höfum verið að vinna að því. Og alveg eins og með annað sem við erum að vinna að, aðrar vísitölur, aðra hluti sem við erum með, er það samsetningin á því sem veldur þeirri brenglun sem fram kemur í neysluviðmiðunum og þess vegna erum við að endurskoða þau.

Ég og þingmaðurinn erum sammála um að neysluviðmiðin endurspegli ekki raunkostnaðinn við að lifa í íslensku samfélagi. Þess vegna erum við að endurskoða viðmiðin. (Gripið fram í.) Og til þess að geta gert það erum við með fleiri aðila sem meta ólíka þætti; húsnæðismálin, það sem lýtur að uppeldi barna og fleiri þætti sem koma inn í þá vinnu þannig að við getum breytt því til frambúðar. Ég og hv. þingmaður erum sammála um það. Og af því að hv. þingmaður talaði hér um virkni áðan vona ég að við séum sammála um mikilvægi þess að um leið og við tryggjum framfærslu fólks sem er atvinnulaust komum við sem flestum út á vinnumarkaðinn aftur, sköpum störf, komum hagkerfinu af stað, vegna þess að vinnan er grunnurinn undir velferðinni. Það hefur alltaf verið þannig og það verður þannig áfram. (Gripið fram í.)