151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

áhættumat vegna framkvæmdar fjárlaga.

[13:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp og vil bæta því við að minnisblaðið sem unnið hefur verið í ráðuneyti mínu hefur verið lagt fyrir ríkisstjórn og kynnt í fjárlaganefnd. Það er mjög mikilvægt sem hv. þingmaður kom inn á að stærsti hluti óvissunnar tengist atvinnuleysi á árinu. Það hefur verið til umræðu í þessum fyrirspurnatíma þar sem af hálfu málshefjanda í þeirri fyrirspurn var farið fram með hugmyndir um að stórauka réttindin sem myndi mögulega enn auka áhættu í þeim málaflokki. En svar mitt við því hvenær sagt er nóg liggur eiginlega í því að fjárlögin eru að hluta til áætlun um útgjöld komandi árs með hliðsjón af ýmsum þáttum, lýðfræðilegri þróun og öðru slíku þar sem undirliggjandi eru einhver tiltekin réttindi fólks til að fá stuðning. Að því leytinu til eru fjárlögin áætlun og atvinnuleysi er kannski ágætisdæmi um það.

Að öðru leyti finnst mér, og ég er ekki að segja þetta í fyrsta skipti hér í þinginu, að eftirlit með framkvæmd fjárlaga mætti vera miklu betra. Það eru mjög skýrar reglur í lögum um opinber fjármál um skyldu fagráðherra til þess að koma sér inn í þá ramma sem þingið hefur ákveðið fyrir viðkomandi málaflokka og einmitt þegar við erum að ræða svona hluti á fyrri hluta árs er ágætistími fram undan til að bregðast við. Það getur verið snúið. Það getur verið pólitískt erfitt. Það getur verið mjög viðkvæmt (Forseti hringir.) að stíga þar inn. En lögin eru alveg skýr um þetta og það sem ég hefði viljað sjá er miklu þéttara og öflugra aðhald með þessum þætti af hálfu þingsins.