151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurskoðun almannatryggingakerfisins.

[13:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Á þessu kjörtímabili áttu að verða kerfisbreytingar á almannatryggingum sem áttu að tryggja hækkun lífeyris örorku um 4 milljarða á ári. Eitthvað hefur gengið erfiðlega að klára þær kerfisbreytingar og óljóst er um afdrif 1,1 milljarðs kr. af þeim kerfisbreytingum. En það er augljóst að lífeyrir almannatrygginga hefur ekki haldið í við launaþróun og allar tillögur sem þingið gerir þurfa að vera með sérstökum skilmálum um skerðingarleysi. Annars hverfa kjarabæturnar í vítahring almannatryggingakerfisins, ofan í eitthvert svarthol sem við og enginn virðist skilja til fulls hvernig virkar og hvaða áhrif kjarabætur hafa þegar þær fara í gegnum allt kerfið. Það virðist eiginlega ekki vera heilvita manni fært að átta sig á öllum fátæktargildrunum og rangölunum í þessu kerfi. Það virðist vera ómögulegt að fá réttindi fólks fram með skýrum og fyrirsjáanlegum hætti. Foreldrar langveikra barna hafa t.d. fengið mismunandi niðurstöður um beiðnir sínar án þess að hafa hugmynd um af hverju, kannski að því að þau töluðu við annan starfsmann daginn áður en þau töluðu við í dag. Spurning mín er, þegar allt kemur til alls: Er ekki kominn tími til að brenna niður þetta kerfi almannatrygginga og Tryggingastofnunar og byrja upp á nýtt? Það gerum við ítrekað í hugbúnaðargeiranum þegar forritið er orðið svo bólgið og flókið að það svarar ekki kostnaði að viðhalda því. Þá er byrjað upp á nýtt með þeirri þekkingu sem við höfum og það gefur alltaf betri niðurstöðu.