151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

opinberar fjárfestingar.

[13:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er einmitt kjarni málsins, hvenær svona hlutir koma til framkvæmda, það skiptir auðvitað öllu máli. Nú liggur alveg kristaltært fyrir að þessar framkvæmdir allar og fjárfestingar hafa dregist. Það er útlit fyrir að þær fari ekki almennilega af stað fyrr en á síðari hluta þessa árs og að þær muni teygja sig fram í framtíðina, akkúrat þegar við öll vonum að viðspyrna atvinnulífsins og atvinnuvegafjárfestingar komist á skrið. Þá er hætt við því að fjárfestingar ríkisins sem þá verða komnar á fullt skrið muni hafa þveröfug áhrif við það sem ætlast var til, valdi óþarfaspennu, óþarfaþenslu með því sem því fylgir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann deili þeim áhyggjum með mér að þetta ástand muni koma upp og til hvaða ráða er hægt að grípa til að koma í veg fyrir að þetta gerist.