151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[13:43]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hinn þögli faraldur. Það hafa afleiðingar af ákomnum heilaskaða verið kallaðar. Um 2.000 manns hljóta heilaáverka árlega hér á landi. Af þeim glíma 200–300 manns við langvarandi afleiðingar og fötlun af þeim sökum. Heilaskaði getur haft víðtæk og truflandi áhrif, t.d. á einbeitingu, minni, mál, persónuleika, tilfinningar, hegðun, hæfni til samskipta, innsæi, framtakssemi og geðslag. Önnur möguleg einkenni í kjölfar heilaskaða geta verið flog, skert hormónastarfsemi, höfuðverkur, svimi, skert hreyfigeta og truflanir á skyni og samhæfingu vöðva.

Ákominn heilaskaði og afleiðingar hans hefur ekki fengið mikið pláss í umræðunni hér á landi. Það sinnuleysi hefur leitt af sér skilningsleysi á afleiðingum hans, bæði innan velferðarkerfisins, menntakerfisins og á vinnumarkaði. Síðustu ár hefur verið ákall fólks sem orðið hefur fyrir heilaskaða og sérfræðinga á því sviði um að bæta þurfi greiningu og skráningu á heilaáverkum og efla sérhæfða íhlutun, meðferð og stuðning við þá sem hafa orðið fyrir skaða af völdum heilaáverka.

Á hverju ári bætast við um tíu einstaklingar sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda eftir heilaskaða. Hér á landi vantar sérlega heildstæða meðferð og endurhæfingarúrræði fyrir einstaklinga með ákominn heilaskaða. Þá er einnig um að ræða stóran hóp sem glímir við afleiðingar til langs tíma því að þeir sem standa næst einstaklingi með ákominn heilaskaða, fjölskylda og vinir, sitja uppi með vandann og koma að lokuðum dyrum í samfélaginu. Heilaskaða geta fylgt geðræn vandamál, mörg heilsufarsleg vandamál og félagslega einangrun. Þessir einstaklingar einangrast þegar þeir fá hvorki meðferð né endurhæfingu.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver eru áform stjórnvalda um að auka fræðslu, rannsóknir og vitundarvakningu hjá almenningi og innan heilbrigðisgeirans um afleiðingar ákomins heilaskaða? Og í annan stað í þessari umferð: Vitað er að mál einstaklinga með ákominn heilaskaða heyra undir félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Hvernig er þverfaglegu endurhæfingarsamstarfi við fólk með heilaskaða og hegðunarvanda stýrt milli ráðuneyta og hverju hefur það skilað?