151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[13:53]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa þörfu og góðu umræðu um dulið mein sem fer víða um samfélagið, ákominn heilaskaða, og er þar vísað til áverka eða skemmda á heila eftir slys eða sjúkdóma og er til kominn einhvern tíma á ævinni eftir fæðingu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að tíðni heilaáverka, þar með talinn heilahristingur, sé um 600 á hverja 100.000 íbúa þannig að á Íslandi má gera ráð fyrir að um 2.000 tilvik komi upp á ári, hjá flestum væg en allt að 10–15% glími við afleiðingar heilaskaða og fái jafnvel varanleg einkenni, oft með þungbærum afleiðingum fyrir viðkomandi og fjölskyldur þeirra.

Tekið skal fram að ofangreindar tíðnitölur ná ekki til þeirra sem hljóta árlega ákominn heilaskaða af öðrum völdum eins og t.d. vegna heilablóðfalls, heilaæxlis, súrefnisskorts eða annarra veikinda eða áfalla sem geta valdið heilaskaða. Mörgum er jafnan ágætlega sinnt, t.d. þeim sem eldri eru og fá heilablóðfall. Og þegar við erum að tala um áfallinn heilaskaða er líka átt við sjúklingahópa eins og alzheimersjúklinga. Mörgum hópum er jafnan ágætlega sinnt, t.d. þeim sem eldri eru og fá heilablóðfall. Staðreyndin er að fjöldi þeirra sem fá höfuðáverka þarf markvissa og einstaklingsmiðaða endurhæfingu í framhaldi af bráðameðferð. Það ferli ásamt eftirfylgd getur tekið mánuði og jafnvel ár.

Ákominn heilaskaði er vangreindur á Íslandi eins og víðar. Frá því upp úr 1985 hafa þjóðirnar í kringum okkur tekist á við þetta mein með markvissa þverfaglega endurhæfingu sem leiðarljós. Viðleitni hefur verið sýnd í þessa átt hérlendis. Sett var í gang tilraunaverkefni á Reykjalundi fyrir nokkrum árum sem gaf góð fyrirheit en vegna fjárskorts varð á því uppihald. Þráðurinn hefur að nokkru leyti verið tekinn upp að nýju en betur má ef duga skal. Það eru aðallega tvær stofnanir, Reykjalundur og Grensás, sem hafa verið í fararbroddi. Þeirra stöðu, verkefni og samstarf þarf að styrkja sem og umgjörðina alla í kringum þann stóra hóp sem glímir við heilaskaða.