151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[13:57]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu um þetta málefni sem fær e.t.v. ekki nógu mikla umfjöllun alla jafna. Eins er það mér ljúft og skylt að koma með vinkil núvitundar inn í þessa umræðu um endurhæfingu í kjölfar áunnins heilaskaða. Á ári hverju verða fjölmargir einstaklingar hérlendis fyrir áunnum heilaskaða, ýmist vegna slysa eða veikinda. Ákominn heilaskaði vísar til skemmdar á heilavef í kjölfar slyss eða sjúkdóms, t.d. blæðingar eða blóðtappa. Í kjölfarið sitja margir uppi með verulega vitræna skerðingu. Algeng langtímavandamál þeirra sem lifa með áunninn heilaskaða eru aukin geðræn vandamál og eiga þau oft töluverðan þátt í því að fólk kemst seint og illa aftur til fullrar atvinnuþátttöku. Þetta á sérstaklega við um einstaklinga sem eru með tvígreiningar; heilaskaða auk fíknivanda. Dr. Gísli Kort Kristófersson hefur verið í forsvari fyrir nýjung í endurhæfingarmeðferð, núvitund sem inngripsaðferð í endurhæfingu vegna áunnins heilaskaða. Doktorsritgerð Gísla fjallaði um núvitund sem endurhæfingarúrræði fyrir einstaklinga með áfengis- og vímuefnavanda og heilaskaða og er hann frumkvöðull í þeirri nálgun.

Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í taugavísindum sem hafa leitt til aukins skilnings á uppbyggingu og starfsemi heilans. Myndgreiningarrannsóknir beinast í auknum mæli að taugalíffræði meðvitundar. Rannsakendur hafa leitast eftir því að leiða í ljós hvaða undirliggjandi taugalífeðlisfræðilegu ferli eru að baki iðkun á núvitund og hvort núvitundariðkun hafi áhrif á sveigjanleika heilans. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós að taugalífeðlisfræðileg áhrif núvitundar á formgerð og virkni heilans eru sannanleg. Rannsóknir með þessum myndgreiningum sýna að áhrif núvitundarþjálfunar á taugastarfsemi og byggingu heilans eru töluverð. (Forseti hringir.) Núvitundarþjálfun hefur því bein áhrif á heilann. Í síðari ræðu minni fer ég betur inn á það hvernig það gerist.